24.03.17

Lítil hætta á að fuglaflensa berist í menn

Vegna fréttar á vefsíðu Matvælastofnunar þann 23.3.2017 um aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu hér á landi er rétt að árétta það sem þar kemur fram að mjög litlar líkur eru á að fuglaflensan berist í menn en hún getur verið hættuleg fuglum.

Margar tegundir inflúensuveiru geta sýkt dýr og þá helst fugla en sýkja sjaldan menn. Sú fuglaflensa sem helst er búist við að geti borist hingað til lands nú er af gerðinni H5N8 en hún hefur aldrei greinst hjá mönnum svo vitað sé. Önnur gerð fuglaflensu sem einnig hefur verið í umræðunni erlendis er af gerðinni H7N9 og aðeins í örfáum tilfellum hefur sú veira greinst hjá mönnum og þá hjá einstaklingum sem eru í nánum samskiptum við sýkta fugla.

Sóttvarnalæknir telur ekki ástæðu til neinna sértækra aðgerða að svo stöddu hér á landi til að koma í veg fyrir smit hjá mönnum. Rétt er þó að vara fólk við að handfjatla dauða fugla án viðeigandi hlífðarbúnaðar heldur setja sig í samband við Matvælastofnun varðandi frekari aðgerðir.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka