23.03.17

Heimsdagur berkla

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur frá árinu 2014 unnið að því markmiði að draga verulega úr veikindum og dauðsföllum vegna berkla fyrir árið 2035 með ákveðnu verklagi sem er kallað „Útrýmum berklum“ (End TB Strategy). Þann 24. mars ár hvert er því haldið upp á heimsdag berkla þar sem athygli er vakin á sjúkdómsbyrði vegna berkla á heimsvísu. Þema dagsins í fyrra og í ár er „Sameinumst um útrýmingu berkla“ (Unite to End TB) en Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) gefa af þessu tilefni út samantektir um stöðu mála í forvörnum og meðferð berkla.

Eftir að meðferð sem heldur HIV-sýkingu í skefjum kom til sögunnar er hún ekki lengur á lista yfir 10 helstu dánarorsakir á heimsvísu. Berklar eru því sú sýking sem dregur flesta til dauða á hverju ári, en fleiri látast af völdum berkla en umferðaslysa. Á Íslandi eru berklar afar sjaldgæfir, 2,1 tilfelli á hverja 100.000 íbúa árið 2015 en það er ein lægsta tíðnin á heimsvísu. Á undanförnum árum hafa 5–10 einstaklingar greinst með berkla hér á landi ár hvert.

 

 

Flestir sem greinst hafa með berkla á Íslandi undanfarna áratugi hafa verið af erlendu bergi brotnir. Berklar meðal Íslendinga greinast oftast hjá eldri einstaklingum sem smituðust á fyrri hluta síðustu aldar. Þegar dregur úr mótstöðuafli með vaxandi aldri eða af öðrum ástæðum getur smitið valdið sjúkdómi. Mikilvægt er að hafa berkla í huga ef einkenni eru til staðar sem geta átt við um sjúkdóminn.

Fremur sjaldgæft er að berklaveikir einstaklingar á Íslandi nái að smita út frá sér. Meðaltími frá upphafi einkenna til greiningar er með besta móti hér á landi eða um 2 mánuðir. Hér á landi tíðkast að rekja smit til heimilismanna og út fyrir heimilið ef við á og bjóða fyrirbyggjandi meðferð þeim sem hafa smitast en eru ekki veikir af berklum. Þessum úrræðum er því miður erfitt að beita þar sem sjúkdómurinn er algengur og fjármunir af skornum skammti, en það torveldar verulega útrýmingu berkla.

Frekari upplýsingar um berklaveiki almennt og sérstaklega á Íslandi má finna í Farsóttaskýrslu 2015 og í greinargerð um berkla á vef Embætti landlæknis.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka