20.03.17

Góðvildarspjöld í tilefni alþjóðlega hamingjudagsins

Sjá stærri mynd

Alþjóðlegi hamingjudagurinn er í dag 20. mars. Dagurinn var fyrst haldinn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt aðildarríki til að útfæra hvernig leggja megi aukna áherslu á hamingju og vellíðan í opinberri stefnumótun og nálgast efnahagsvöxt með þeim hætti að hann stuðli að sjálfbærri þróun, vinni gegn fátækt og auki vellíðan allra íbúa.

Nánari upplýsingar um alþjóðlega hamingjudaginn má finna hér: www.dayofhappiness.net

Í tilefni alþjóðlega hamingjudagsins á þessu ári hefur Embætti landlæknis gefið út 22 veggspjöld fyrir leik- og grunnskóla til að vekja athygli á góðvild og mikilvægi þess að sýna sjálfum sér, umhverfinu og öðru fólki umhyggju. Spjöldin eru þýdd með leyfi frá samtökunum Random Acts of Kindness Foundation og má hlaða þeim niður og prenta út af vef embættisins.

Skólar eru hvattir til að gera komandi viku að hamingjuviku í skólastarfinu og nota góðvildarspjöldin, t.d. til að hengja upp í kennslustofunni, leyfa nemendum að velja sameiginleg gildi bekkjarins, nýta sem umræðuefni í kennslu eða hvað sem hugarflugið býður upp á. Spjöldin eru gefin út í tveimur útgáfum með örlítið mismunandi texta og myndum fyrir yngri og eldri nemendur.

Embætti landlæknis hvetur sömuleiðis alla landsmenn til að nýta alþjóðlega hamingjudaginn til að huga að eigin hamingju og annarra. Hvað gerir ykkur hamingjusöm? Hvað getum við gert til að gleðja aðra og stuðla að vellíðan í kringum okkur? Hvernig sýnum við umhverfi okkar og jörðinni umhyggju?

Til hamingju með daginn!

Skoðið nánar: Góðvildarspjöld (PDF)
til að hlaða niður og prenta út.

Sigrún Daníelsdóttir
verkefnisstjóri geðræktar

 

<< Til baka