17.03.17

Mikil aukning í ávísunum þunglyndislyfja á undanförnum árum

Árið 2016 leystu 46.266 einstaklingar út þunglyndislyf á Íslandi en árið 2012 voru þeir 38.015. Þetta er 21,7% aukning á fjölda notenda á 4 árum sem verður að teljast mikið.

Mesta aukningin er í fjölda yngri notenda en notendum á aldrinum 15–19 ára fjölgar um 62,2% á þessum tíma (sjá graf 1). Hjá sama aldurshópi aukast skammtar þunglyndislyfja um 98,4% frá 2012 til 2016.

Stærstur hluti allra ávísana þunglyndislyfja er í flokki sérhæfðra serótónin endurupptökuhemla (SSRI) og er aukningin að mestu tengd þeim (sjá graf 2). Nýlega var birt rannsókn sem benti til  takmarkaðrar gagnsemi SSRI lyfja við þunglyndi, sérstaklega fyrir mildustu form þunglyndis (1).

Árið 2013 var notkun þunglyndislyfja mest á Íslandi miðað við öll OECD lönd, en þá var notkunin 203% miðað við meðaltal OECD landa (2). Hæst hlutfall notenda á Íslandi er meðal eldra fólks, en árið 2016 fengu um 38% allra Íslendinga á aldrinum 85–89 ára ávísað þunglyndislyfjum og yfir 45% þeirra sem eru 90 ára og eldri.

Notkun þessara lyfja á Íslandi er umhugsunarverð og verður læknasamfélagið að koma með skýringar á þessum mun á Íslandi og öðrum þjóðum, hvort þunglyndi og kvíði sé algengara hér en annarsstaðar, hvort verið sé að ávísa þessum lyfjum óhóflega, hvort einhverjir séu að fá lyfin sem ekki þurfa á þeim að halda eða hvort skortur sé á öðrum úrræðum við þunglyndi og kvíða en lyfjameðferð.

Þá þarf að finna skýringar á mikilli aukningu ungra notenda og háu hlutfalli notenda meðal eldra fólks og hvort auka eigi aðgengi að annarri sannreyndri meðferð.

Í sérlyfjaskrá segir um sum SSRI lyf að þau eigi ekki að nota til meðferðar hjá börnum og unglingum vegna þess að fram hefur komið í klínískum samanburðarrannsóknum að þau tengist aukinni sjálfsvígshættu og óvild. Þrátt fyrir það fengu rúmleg 100 börn yngri en 18 ára ávísað paroxetini árið 2016.

Eitt sem vekur eftirtekt er að margir þeirra sem fá ávísað þunglyndislyfjum fá jafnframt örvandi lyf og er fjöldi þeirra sem eru á slíkri samhliða lyfjameðferð alltaf að aukast.

Árið 2012 fengu 444 börn undir 18 ára ávísað báðum lyfjum á sama tíma (innan 60 daga) en árið 2016 var fjöldinn kominn í 769. Hvað varðar fullorðna var fjöldinn 899 árið 2012 en árið 2016 var fjöldinn kominn í 1809. 

Þetta er mikil aukning sem vekur upp spurningar, en notkun í báðum þessum lyfjaflokkum er mikil á Íslandi miðað við notkun á heimsvísu og það er athyglisvert hversu margir fá þessum lyfjum ávísað samhliða.

Heimildir:

1. https://bmcpsychiatry.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12888-016-1173-2

2. http://www.oecd-ilibrary.org/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-2015/pharmaceutical-consumption_health_glance-2015-68-en

 

Magnús Jóhannsson læknir

Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri

Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur

Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur

<< Til baka