13.03.17

Forseti Íslands veitti Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ Gulleplið 2017

Sjá stærri mynd

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ásamt aðstandendum Heilsueflandi framhaldsskóla við framhaldsskólann í Mosfellsbæ og hjá Embætti landlæknis.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti framhaldsskólanum í Mosfellsbæ Gulleplið, viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf við heilsueflingu í framhaldsskóla, við athöfn sem haldin var þann 1. mars sl. í hátíðarsal skólans.

Valið fer þannig fram að skólar, sem sækjast eftir viðurkenningu, senda umsókn til dómnefndar á vegum landlæknisembættisins. Með umsókninni sendir skólinn stuttan rökstuðning fyrir því að hann eigi skilið að fá viðurkenningu fyrir tiltekið skólaár.

Alls bárust umsóknir frá sex framhaldsskólum um viðurkenninguna fyrir síðastliðið skólaár. Dómnefnd á vegum Embættis landlæknis fór yfir umsóknirnar og ákvað að Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlyti viðurkenninguna að þessi sinni. Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Þetta er sjötta skiptið sem Gulleplið er afhent, en áður hafa Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, Fjölbrautaskóli Suðurlands og Borgarholtsskóli hlotið viðurkenninguna.

Heilsueflandi framhaldsskóli hófst árið 2009 og eru allir framhaldsskólar landsins þátttakendur í því ef frá eru taldir örfáir sérskólar.

Verkefnið lýtur að fjórum meginviðfangsefnum: Næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Markmið framhaldsskólanna mótast af því viðhorfi að heilsueflandi umhverfi bæti líðan nemenda, stuðli að bættum námsárangri og dragi úr brottfalli.

Sjá nánar á vef embættisins: Heilsueflandi framhaldsskóli

Héðinn Svarfdal Björnsson
verkefnisstjóri 

 

 

 

<< Til baka