27.02.17

Áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) vegna hópsýkinga af völdum lifrarbólgu A meðal karla sem hafa mök við karla

Lifrarbóla A er alvarlegur veirusjúkdómur sem smitast með saurmengun. Upplýsingar um sjúkdóminn má finna á vefsíðu Embættis landlæknis. Þar má einnig finna leiðbeiningar um bólusetningar fullorðinna gegn lifrarbólgu A.

Helstu niðurstöður og tilmæli Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) um viðbrögð við hópsýkingunum eru eftirfarandi:

Frá því í febrúar 2016 hefur lifrarbólga A verið staðfest hjá 287 einstaklingum í 13 Evrópulöndum. Flestir sem hafa greinst hafa verið ungir karlar sem hafa kynmök við karla (KKK) en aðeins níu konur.

Helsta forvarnaraðgerðin gegn þessari hópsýkingu er bólusetning gegn lifrarbólgu A. Hvatt er til þess að KKK láti bólusetja sig gegn sjúkdómnum.

Eftirtöldum hópum er sérstaklega bent á að láta bólusetja sig:

 • KKK sem hyggjast ferðast til staða þar sem hópsýkinga af völdum lifrarbólgu A hefur orðið vart meðal KKK. 
 • KKK sem búsettir eru á svæðum þar sem hópsýkinga hefur orðið vart. 
 • KKK sem eru í sérstakri áhættu að fá alvarlegar afleiðingar sjúkdómsins, m.a. þeir sem eru haldnir lifrarbólgu B og/eða lifrarbólgu C eða ef þeir sprauta sig með lyfjum.
 • Á Íslandi hefur sóttvarnalæknir til margra ára ráðlagt KKK að láta bólusetja sig gegn lifrarbólgu A og lifrarbólgu B.

Til viðbótar bólusetningu skal íhuga eftirfarandi forvarnaraðgerðir gegn smiti meðal KKK:

 • Veita almennar ráðleggingar um forvarnir og hvetja til bólusetningar í samfélagsmiðlum og miðlum samkynhneigðra. 
 • Vekja athygli starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar á hópsýkingum af völdu lifrarbólgu A meðal KKK og hvetja til bólusetninga KKK á heilsugæslustöðvum. 
 • Mikilvægi þess að upplýsa heilbrigðisstarfsmenn um rekkjunauta sýktra einstaklinga. 
 • Veita rekkjunautum, sambýlingum og öðrum sem hafa haft náið samband við sýktan einstakling fyrirbyggjandi vörn með bólusetningu. 
 • Vekja athygli KKK á smiti af völdum lifrarbólgu A sem getur stafað af áhættusömu kynlífi. 
 • Fræðslu sem beinist að KKK um mikilvægi bólusetningar og hreinlæti (handþvottur og þvottur kynfæra fyrir og eftir kynmök). Sértakar varnir fyrir munn-endaþarmsmök geta varnað smiti á lifrarbólgu A sem og smokkar geta varið gegn öðrum kynsjúkdómum við endaþarmsmök. 
 • Nauðsynlegt er að prófa alla KKK sem sýkst hafa af lifrarbólgu A fyrir öðrum kynsjúkdómum og HIV. 
 • Lifrarbólga A er tilkynningarskyldur sjúkdómur.

Hér er hægt að skoða áhættumat ECDC í heild sinni.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka