27.02.17

Þjónustukönnun meðal notenda heilbrigðisþjónustu – tilraunaverkefni

Sjá stærri mynd

Heilsugæslan í Grafarvogi er meðal þátttakenda í tilraunaverkefni um þjónustukannanir í heilbrigðisþjónustu. Á myndinni eru frá vinstri: Sigurósk Edda Jónsdóttir, Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson og Linda Ragnarsdóttir, stjórnendur á Heilsugæslunni í Grafarvogi.

Embætti landlæknis hefur nýverið ýtt úr vör tilraunaverkefni er lýtur að þjónustukönnun meðal notenda heilbrigðisþjónustu. Könnunin er gerð á rafrænan hátt og geta notendur látið í té skoðun sína á þjónustunni með hjálp ákveðins forrits.

Niðurstöður liggja fyrir vikulega og geta viðkomandi stjórnendur nýtt þær í umbótastarfi.

Könnunin er nú gerð til reynslu á fjórum stöðum á landinu; Heilsugæslunni í Grafarvogi, Heilsugæslunni á Sauðárkróki, einni deild á Landspítalanum og einni deild á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Vonast er til þess að slíkar kannanir verði í framtíðinni sjálfsagður hluti af því að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustu þar sem hún er veitt.

Með því að leita eftir því hvað notendum heilbrigðisþjónustu finnst um þjónustuna sem þeir fá  vill Embætti landlæknis vekja athygli á því að reynsla notenda af þjónustunni er verðmæt uppspretta upplýsinga sem nýtist í umbótastarfi.

Þar skipta þjónustukannanir miklu máli. Einnig vill embættið hvetja til þess að notendur taki virkan þátt í eigin meðferð eftir því sem unnt er enda sýna rannsóknir að þeim sem það gera farnast betur.

Mikilvægt er að notendur heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisyfirvöld vinni saman að því að efla gæði og öryggi þjónustunnar og væntir embættið þess að umræddar þjónustukannanir verði liður í því mikilvæga starfi.


Laura Sch. Thorsteinsson
verkefnisstjóri á sviði gæða og eftirlits

<< Til baka