23.02.17

Ný skýrsla Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um sýklalyfjaónæmi

Í sameiginlegri fréttatilkynningu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu þann 22. febrúar 2017 var kynnt ný skýrsla um sýklalyfjaónæmi í Evrópu hjá mönnum, dýrum og í matvælum.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að sýklalyfjaónæmi er verulegt heilbrigðisvandamál í Evrópu, bæði hjá mönnum og dýrum. Áætlað er að ónæmar bakteríur valdi um 25 þúsund dauðsföllum í Evrópu á hverju ári. Þar var einnig kynnt nýtt vefviðmót til að leita upplýsinga um sýklalyfjaónæmi í einstökum löndum.

Í skýrslunni kemur fram að sýklalyfjaónæmi er breytilegt milli landa og jafnvel innan einstakra landa. Tilhneigingin er þó sú að ónæmi er algengara í Suður og Austur Evrópu heldur en í Norður og Vestur Evrópu.

Á Íslandi er ónæmi hjá mönnum og dýrum almennt lægra en í öðrum Evrópulöndum en sóttvarnalæknir birtir árlegar upplýsingar um sýklalyfjanotkun og ónæmi hjá mönnum og dýrum í samvinnu við Matvælastofnun, Lyfjastofnun og sýklafræðideild Landspítalans, sjá Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi 2015.

Hins vegar eru litlar sem engar upplýsingar fyrirliggjandi um sýklalyfjaónæmi í matvælum á Íslandi, innlendum sem erlendum.

Velferðarráðuneytið setti á laggirnar starfshóp á árinu 2016 í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og tilraunastöð HÍ að Keldum sem fékk það hlutverk að koma með tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi. Starfshópurinn mun væntanlega skila tillögum sínum á næstu vikum.

Sóttvarnalæknir

 

<< Til baka