09.02.17

Flensur og aðrar pestir – 5. vika 2017

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala
Frá því í lok nóvember 2016 hefur inflúensa A(H3) verið staðfest hjá 226 einstaklingum, sjá töflu 1. Í síðustu viku greindust fleiri með staðfesta inflúensu samanborið við vikurnar á undan og hefur hún nú verið staðfest í öllum landshlutum. Inflúensan er hlutfallslega algengari meðal 60 ára og eldri, meðalaldurinn er 63 ár hjá þeim sem greinst hafa frá því í nóvember. Enginn hefur greinst með inflúensu A(H1) en einn einstaklingur hefur greinst með inflúensu B.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Nokkur aukning var á fjölda þeirra sem fengu greininguna inflúensulík einkenni í heilsugæslunni eins og sjá má á mynd 1. Hægt er að skoða aldursdreifingu þeirra í töflu 2 frá 40. viku 2016–4. viku 2017. Þegar upplýsingarnar eru skoðaðar eftir búsetu má sjá að inflúensan var fyrr á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu í 3. viku en á síðustu vikum hefur inflúensan farið hægt vaxandi á landsbyggðinni, sjá mynd 2.

Innlagnir á Landspítala
Frá því í byrjun desember hafa alls 95 einstaklingar legið á Landspítala vegna inflúensu, þar af greindist 21 í síðustu viku sem er aukning borið saman við vikurnar á undan. Flestir eiga það sameiginlegt að vera 70 ára og eldri, meðalaldurinn er tæp 74 ár.

Staðan á meginlandi Evrópu
Inflúensan er nú útbreidd á meginlandi Evrópu, sjá nánar á inflúensuvef Sóttvarnarstofnunar ESB (ECDC). Ráðandi stofn er inflúensa A(H3N2), sem leggst þyngst á eldri borgara, og er það í samræmi við aldursdreifinguna hér á landi. Í Evrópu má greina nokkra aukningu á dauðsföllum meðal aldraðra, sem hugsanlega má rekja til árlegs inflúensufaraldurs.

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur
Inflúensan er útbreidd í samfélaginu, sennilega er hún í hámarki núna og gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur verið í dreifingu, en ekki er útilokað að inflúensa A(H1N1) eða inflúensa B eigi eftir að koma í kjölfarið á næstu vikum.

Samkvæmt áhættumati ECDC og áhættumati Alþjóðaheilbrigðis-
málastofnunarinnar (WHO)
er aldrað fólk í mestri hættu vegna alvarlegra veikinda sökum inflúensunnar. Upplýsingar um inflúensu á Íslandi endurspegla þetta áhættumat, því þeir sem greinast með staðfesta inflúensu eru oftast aldraðir einstaklingar og flestir sem leita á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir vegna alvarlegra einkenna af völdum inflúensunnar tilheyra sama aldurshóp.

Upplýsingar um virkni inflúensubóluefnis í vetur benda til þessa að hún sé sambærileg við síðustu ár þ.e. minni meðal aldraðra (≥65 ára).

Sóttvarnalæknir hvetur lækna til að íhuga notkun veirulyfja hjá þessum áhættuhóp við grun um eða staðfesta inflúensu, óháð bólusetningu.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala fer einstaklingum sem greinast með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) fjölgandi en hún hefur greinst hjá alls 114 einstaklingum frá því í byrjun október, sjá töflu 1. Þar af greindust 19 einstaklingar í síðustu viku sem er svipaður fjöldi og hefur greinst á síðastliðnum vikum. Það má því gera ráð fyrir að RSV sé í dreifingu í samfélaginu. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur.

Á síðastliðnum tveimur vikum hafa alls 27 einstaklingar greinst með metapneumoveiru, en sá hópur er á öllum aldri frá tveggja mánaða til 85 ára.

Í síðustu viku greindust nokkrir einstaklingar með rhinoveiru, adenóveiru og parainflúensu 1, sjá töflu 3.

Meltingarfærasýkingar
Fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang er eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma, sjá mynd 3.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala var lítið um jákvæð saursýni, stöku einstaklingar greindust með caliciveiru og adenóveiru, sjá töflu 4.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka