07.02.17

Embætti landlæknis lýsir yfir andstöðu við bjór, léttvín og sterkt vín í almennum verslunum

Aftur hefur verið lagt fram frumvarp sem felur í sér aukið aðgengi að áfengi. Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt, smásala verði að ákveðnu marki frjáls og að bjór, léttvín og sterkt áfengi verði selt í almennum verslunum.

Að auki er lagt til að leyfa auglýsingar á áfengi. Þessar breytingar geta haft aukin skaðleg áhrif á heilbrigði landsmanna sem verða ekki aftur tekin.

Mikilvægt er að hafa lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi og að farið sé að ráðgjöf þeirra sérfræðinga sem hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í umræðu og ákvarðanatöku. Embætti landlæknis ítrekar því enn og aftur andstöðu við frumvarp um aukið aðgengi að áfengi.

Aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála samfara stórauknum samfélagslegum kostnaði. Samfélagsleg áhrif geta meðal annars verið aukin fjarvera vegna veikinda,  þjófnaðir, öryggisleysi vegna áfengisneyslu annarra, slys og ofbeldi.

Mikilvægt er að skoða heildarmyndina og hafa heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi í umræðunni áður en tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum í áfengisforvörnum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru afnumdar, þ.e.a.s. takmörkun á aðgengi og bann við auglýsingum. Um leið er lagt til að efla aðrar forvarnaraðgerðir sem rannsóknir hafa sýnt að hafa lítil sem engin áhrif á áfengisneyslu.  


Áfengisneysla er ekki einkamál þess sem drekkur

Í samnorrænni rannsókn á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC) kemur fram að margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra, jafnt fjölskyldumeðlima, vina, kunningja og ókunnugra. Rannsóknin er hluti af norrænu samtarfsverkefni sem Embætti landlæknis tekur þátt í fyrir Íslands hönd.

Í íslensku niðurstöðunum kemur m.a. fram að nærri þriðjungur Íslendinga 18 ára og eldri hefur orðið fyrir skaðlegum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra í sínu nánasta umhverfi. Konur og yngra fólk verður frekar fyrir skaða vegna drykkju annarra.

Niðurstöður úr rannsóknum sem þessum eru mikilvægar í allri stefnumörkun í lýðheilsu og áfengismálum, og á það við um þætti allt frá aðgengi að áfengi til barnaverndar og vinnuverndar.

Nái frumvarpið fram að ganga eru stórauknar líkur á  skaðlegum áhrifum á þá sem neyta áfengis í óhófi, fjölskyldur þeirra og einnig á þriðja aðila.

Óbeinar reykingar og áhrif þeirra hafa fengið athygli og sett hafa verið lög og reglur til að takmarka áhrifin á aðra en þá sem reykja. Á sama hátt á að taka tillit til óbeinna áhrifa áfengisneyslu, enda hefur það verið metið svo að áfengi valdi jafnvel fleiri dauðsföllum en tóbak.

Rafn M. Jónsson
Sveinbjörn Kristjánsson
verkefnisstjórar áfengisvarna

 

Fyrri yfirlýsingar frá Embætti landlæknis um breytingar á sölu áfengis:

<< Til baka