06.02.17

Hlutverkaskipan í heilbrigðisþjónustunni

Í viðtali við Stöð 2 í kvöldfréttum þann 4. febrúar sl. spyr Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor, að því hvar eftirlitsaðilar með heilbrigðisþjónustunni séu staddir, þar á meðal landlæknir „sem á að tryggja öryggi sjúklinga".

Full ástæða er til að koma á framfæri leiðréttingu um þetta atriði, enda er það alvarlegt þegar yfirlækni og prófessor á háskólasjúkrahúsi landsmanna skortir þekkingu á hlutverkaskipan í heilbrigðisþjónustunni og fer með fleipur um þetta í fjölmiðlum.

Veitendur heilbrigðisþjónustu, í umræddu tilviki stjórnendur Landspítalans, bera ábyrgð á því að þjónustan sem veitt er standist kröfur um gæði og öryggi sjúklinga. Hlutverk landlæknis er lögum samkvæmt að hafa eftirlit með öryggi sjúklinga og gæðum þjónustunnar og fara fram á umbætur ef þörf er á.

Í því skyni getur landlæknir beint tilmælum til viðkomandi heilbrigðisstofnunar um umbætur. Landlæknir hefur því miður engin önnur úrræði, getur t.d. ekki beitt dagsektum eða öðrum úrræðum eins og fullyrt var í viðkomandi frétt.

Forgangsverkefni í heilbrigðiskerfinu
Landlæknir hefur í meira en eitt ár talað um nauðsynleg forgangsverkefni í heilbrigðiskerfinu sem geta stuðlað að gæðum og skilvirkni þess. Eftirfarandi verkefni eru aðeins hluti af þeim lista:

  • Styrkja heilsugæsluna
  • Reisa nýtt háskólasjúkrahús í nánum tengslum við Háskóla Íslands
  • Efla dag- og göngudeildarþjónustu við Landspítalann
  • Koma á nýju fjármögnunarkerfi fyrir sjúkrahús byggt á DRG, þar sem greitt er fyrir hvert legutilfelli samkvæmt ákveðnu flokkunarkerfi
  • Innleiða sambærilegt greiðslukerfi fyrir sams konar þjónustu, óháð rekstrarformi
  • Skilgreina hlutverk heilbrigðisstofnana og ábyrgð þeirra á aðgengi, gæðum og öryggi
  • Efla sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni
  • Efla sérfræðimönnun á Landspítlanum og fækka hlutastörfum
  • Setja reglur um aukastörf starfsfólks
  • Bjóða út heilbrigðisþjónustu samkvæmt kröfulýsingu

Sum þessara atriða snúa að stjórnendum Landspítalans, önnur að velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands. Því miður verður að segjast eins og er að lítið hefur gerst í þessum málum, ef frá er talin viss hreyfing í rétta átt innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Landlæknir

<< Til baka