03.02.17

Skráargatið á enn fleiri matvæli

Sjá stærri mynd

Nýjar skilgreiningar fyrir Skráargatið tóku gildi 1. september 2016, en með þeim eru nú gerðar strangari kröfur, sérstaklega hvað varðar salt í vörum. Til þess að matvæli geti borið Skráargatið þurfa þau að innihalda minna salt og sykur, hollari fitu og meira af heilkorni og trefjum en sambærileg matvæli sem ekki uppfylla skilyrði til að geta borið Skráargatið.

Á árinu 2015 var sett ný reglugerð fyrir Skráargatið og samkvæmt henni bættust nýir matvælaflokkar við og eru þeir nú samtals 33 í stað 25 flokka í fyrri reglugerð og geta því enn fleiri matvælaflokkar borið Skráargatsmerkið.

Sem dæmi um ný matvæli sem geta borið Skráargatsmerkið eru sósur og ósaltaðar hnetur auk ýmissa glúten- og laktósalausra matvara í sumum matvælaflokkum reglugerðarinnar. Auk þess mega fjölmörg matvæli bera Skráargatið, s.s. ferskir ávextir og grænmeti, fiskur og tilbúnir réttir ýmiss konar.

Fleiri óforpökkuð matvæli geta nú borið Skráargatið en áður var. Auk óunnins fisks, grænmetis og ávaxta er hægt að nota Skráargatið á óunnið kjöt, brauð, hrökkbrauð og osta, sem ekki er forpakkað, að því tilskildu að vörurnar uppfylli skilyrði reglugerðarinnar fyrir notkun merkisins.

Nánar um Skráargatið: www.skraargat.is

Elva Gísladóttir

Hólmfríður Þorgeirsdóttir

verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

Ítarefni:
Reglugerð um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla

Bæklingur um Skráargatið
Spurningar og svör um Skráargatið

<< Til baka