26.01.17

Fréttaflutningur um aðkomu landlæknis að rekstri Klíníkurinnar Ármúla

Vegna misvísandi fréttaflutnings þessa dagana um aðkomu landlæknis að rekstri heilbrigðisþjónustu Klíníkurinnar Ármúla vill landlæknir koma eftirfarandi á framfæri:

Það er ekki hlutverk landlæknis að veita rekstraraðilum leyfi til að reka heilbrigðisþjónustu. Aðkoma landlæknis að rekstri heilbrigðisþjónustu felst í að staðfesta að fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu sem tilkynntur er til landlæknis uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf enda eitt af meginhlutverkum landlæknis að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.

Ráðherra fer með yfirstjórn heilbrigðismála og markar stefnu um skipulag heilbrigðisþjónustu. Klíníkin Ármúla tilkynnti landlækni fyrirhugaðan rekstur fimm daga legudeildar. Að mati landlæknis fól fyrirhuguð starfsemi í sér rekstur sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu en forsendur fyrir slíkum rekstri, þ.e. ákvörðun ráðherra eða samningur, lágu ekki fyrir.

Í ljósi þessa bar landlæknir tilkynningu Klíníkurinnar undir ráðherra. Það var hins vegar mat ráðuneytisins að fyrirhuguð starfsemi Klíníkurinnar teldist ekki til sjúkrahúsþjónustu heldur starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna.

Landlæknir staðfesti rekstur Klíníkurinnar með vísan til mats ráðuneytisins, þ.e. sem starfsstofu. Í staðfestingu landlæknis á rekstri Klíníkurinnar Ármúla var þó tekið fram að lögbundið eftirlit embættisins myndi engu að síður taka mið af þeirri afstöðu landlæknis að umrædd fimm daga deild væri sérhæfð sjúkrahúsþjónusta. Rétt er að benda á að forsvarsmenn Klíníkurinnar eru sammála landlækni um að um sé að ræða sjúkrahúsþjónustu.  

 

Landlæknir

<< Til baka