18.01.17

Tannverndarvika 2017: Þitt er valið

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 30. janúar - 3. febrúar 2017 með skilaboðum til landsmanna um að draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja. 

Stjórnendur verslana eru hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru s.s. ávöxtum,  grænmeti og vatnsdrykkjum en afnema jafnframt afsláttarkjör af sælgæti  og gosdrykkjum.

Landsmenn eru hvattir til að leggja áherslu á hollustu og heilbrigða lifnaðarhætti  með því að draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja. 

Veggspjaldið Þitt er valið hefur verið uppfært og endurútgefið á vegum Embættis landlæknis en þar má á myndrænan hátt sjá sykurmagn og sýrustig nokkurra algengra vatnsdrykkja, ávaxtadrykkja, gosdrykkja, íþróttadrykkja og orkudrykkja á innlendum markaði.

Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla auk íþróttafélaga eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem stuðla að því að draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja. Forsvarsmenn íþróttamannvirkja eru ennfremur hvattir til að huga að því að draga úr framboði gosdrykkja og sælgætis í umhverfi barna.

Hægt er að hlaða niður og panta veggspjaldið Þitt er valið á vef embættisins.

 

Hólmfríður Guðmundsdóttir
tannlæknir

<< Til baka