23.12.16

Svar við ósk VEL 19. desember 2016 um skyndiúttekt á stöðu LSH í ljósi fjölmiðlaumræðu

Mánudaginn 19. desember sl. barst Embætti landlæknis eftirfarandi erindi frá Velferðarráðuneytinu:

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að óska eftir því að Embætti landlæknis fari og geri skyndiúttekt á stöðunni á Landspítalanum, í ljósi fjölmiðlaumræðu um helgina. Óskað er eftir því að ráðuneytinu verði í framhaldinu gerð grein fyrir niðurstöðunni eins fljótt og auðið er.

Áður en þetta erindi barst hafði Embætti landlæknis í ljósi fjölmiðlaumræðunnar óskað eftir ákveðnum upplýsingum frá Landspítalanum (LSH) mánudaginn 19. desember og ákveðið að fara í eftirlitsheimsókn. Landlæknir fór ásamt tveimur fulltrúum embættisins í eftirlitsheimsóknina sama dag. Enn fremur voru rýnd gögn úr gagnagrunnum Embættis landlæknis.

Helstu niðurstöður eftirlitsheimsóknar á LSH

Farið var á sex legudeildir á LSH við Hringbraut. Rætt var við deildarstjóra flestra deildanna auk starfsfólks. Á þremur þessara deilda voru einn til þrír sjúklingar á ganginum eða samtals sex sjúklingar, en fram kom að þeir voru fleiri um síðustu helgi.

Einnig kom fram að meira álag er á legudeildum við Hringbraut nú vegna þess að ein deild er lokuð vegna viðgerða og hefur það svokölluð „domino-áhrif“ á aðrar deildir. Þá kom fram að nokkuð er um að sjúklingar sem lokið hafa meðferð á þessum deildum geti ekki útskrifast af ýmsum ástæðum. Helstu ástæðurnar eru bið eftir rými á Landakoti, en um tveggja mánaða bið er eftir rými þar, bið eftir rými á Vífilstöðum og bið eftir rými á hjúkrunarheimili.

Vert er að taka fram að rúmum á LSH hefur fækkað verulega á undanförnum árum, fjölbýlum hefur fækkað eða rúmum á þeim fækkað, einbýlum fjölgað, salernum fjölgað og allt þetta hefur fækkað legurýmum. Sumar deildir hafa aðgang að legurýmum á öðrum deildum LSH til að minnka álag. Þá kom fram að mikil samvinna er innan sviða og milli sviða til að jafna álag.

Á sumum deildum er mjög fátítt að sjúklingar liggi á gangi en á öðrum er það fremur regla en undantekning. Töluverð vinna sem krefst útsjónarsemi fer í að skipuleggja hvernig best sé að nýta legurými og finna sjúklingum úrræði eftir útskrift. Sumir sjúklingar geta ekki legið á gangi af ýmsum ástæðum, svo sem að þeir þarfnast súrefnis, þeir þurfa á einangrun að halda, mikill fjöldi aðstandenda fylgir þeim vegna alvarlegs ástands og fleira.

Helstu niðurstöður úr umbeðnum upplýsingum frá LSH

1. Leyfður rúmafjöldi miðað við mönnunaráætlanir:
    271 rúm.

2. Fjöldi sjúkrarýma sem viðkomandi deildir voru hannaðar fyrir. Ef upphaflegum meðferðarrýmum hefur verið breytt í annars konar rými óskast það tekið fram.

Mörgum rýmum hefur breytt í annars konar aðstöðu, bæði vegna meðferðar sjúklinga og aðstöðu fyrir starfsfólk

3. Fjöldi „lokaðra rúma".

Samkvæmt svörum eru átta legurými lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og 11 legurými lokuð með þeirri skýringu að ef öll rýmin yrðu nýtt „væri verulega lítið athafnapláss á stofunum".

4. Eru sjúklingar lagðir inn í rými sem ekki er ætlað sem meðferðarrými ef „lokuð rúm" eru fyrir hendi á deildinni?

Samkvæmt svörum stjórnenda er það ekki gert.

Í svörunum kom fram að rúmanýting er mjög há, frá 94% upp í 112%. Á lyflækningasviði er meðal rúmanýting 104% og á skurðlækningasviði 105%. Algengt viðmið er 85% rúmanýting á bráðadeildum.
Svörin eiga við um skurðlækningasvið og lyflækningasvið spítalans.

 

Samantekt Embættis landlæknis.

Samkvæmt þeim gögnum sem aflað hefur verið er það mat embættisins að ástandið nú og sem lýst var í fréttum sjónvarps sunnudaginn 18. desember sé ekki mikið frábrugðið því sem verið hefur um langt skeið á spítalanum. Það breytir því hins vegar ekki að það er afar slæmt að sjúklingar sem þurfa á sjúkrahúsþjónustu að halda liggi á göngum eða setustofum.

Á þeim deildum sem heimsóttar voru eru 116 legurými. Þennan tiltekna dag lágu 122 sjúklingar á þessum deildum og því sex sjúklingar á gangi eða í öðrum rýmum. Það skal tekið fram að sjúklingur er ekki lagður í slíkt rými nema að undangengnu nákvæmu mati á því hvort hann sé fær um það. Fram kom í viðtölum við starfsfólk að fleiri sjúklingar hefðu legið á gangi um helgina þegar sjónvarpið kom í heimsókn.

Eins og sést á meðfylgjandi línuriti útskrifast mun færri sjúklingar að meðaltali um helgar en á virkum dögum og er það hluti af skýringunni á því að þröngt er um sjúklingana um helgar. 

Útskriftir á Landspítala eftir vikudögum 21/11 - 18/12 2016

Útskriftir á Landspítala eftir vikudögum á tímabilinu 21/11 – 18/12 2016

Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að innskriftir eru einnig færri á laugardögum og sunnudögum en á öðrum dögum vikunnar sem bendir til minni starfsemi um helgar á þessum deildum.

Annar hluti skýringarinnar er að langur biðtími er eftir öðrum úrræðum fyrir marga sjúklinga sem lokið hafa meðferð. Við þetta bætist að meira álag er á legudeildum við Hringbraut nú vegna þess að ein deild er lokað vegna viðgerða.

Ljóst er að mikið álag er á starfsfólki Landspítalans sem vinnur við erfiðar og krefjandi aðstæður. Við það bætist að veikindi starfsfólks hafa verið óvenju mikil í haust samanborið við sama tímabil í fyrra. Sjúklingaflokkunarkerfi spítalans sýnir að meðalfjöldi mældra hjúkrunarstiga hefur á flestum deildum í haust verið yfir þeim viðmiðum sem spítalinn hefur sett sér.

Flestir viðmælendur í eftirlitsheimsókninni töluðu um að „gangainnlagnir“ væru hluti af venjulegum veruleika á spítalanum og er það mikið áhyggjuefni að mati Embætti landlæknis að það ástand hefur verið viðvarandi mjög lengi, jafnvel áratugi.

Ljóst er að margir samverkandi þættir voru þess valdandi að það ástand skapaðist sem lýst var í sjónvarpinu að kvöldi 18. desember. Lykilþáttur í því að leysa þann vanda er bygging nýrrar aðstöðu fyrir starfsemi LSH.

Birgir Jakobsson landlæknir

Leifur Bárðarson sviðsstjóri

Laura Sch. Thorsteinsson verkefnisstjóri 

<< Til baka