21.12.16

Hreinar hendur hindra smit

Sjá stærri mynd

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar um handþvott og handsprittun á fjórum tungumálum auk íslensku. Aðferðin sem lýst er í leiðbeiningunum er sú sem mælt er með alls staðar í heiminum, en vandlega hreinsaðar hendur eru ein mikilvægasta sóttvarnaraðgerð sem völ er á.

Leiðbeiningarnar sem nú koma út hafa verið til í íslenskri útgáfu á vef Embættis landlæknis um árabil en eru nú gefnar út með nýju útliti og hafa verið þýddar á fjögur algengustu erlendu tungumálin sem notuð eru hér á landi þannig að boðskapur þeirra nái til sem flestra. Hægt er að prenta þær út til að nota sem leiðbeiningar við handlaugar á þeim tungumálum sem henta þykir, sjá Leiðbeiningar um handþvott.

Engin sýkingavarnaaðgerð er eins áhrifarík og góð handhreinsun því að hendurnar fá á sig alls kyns bakteríur, veirur og ýmis sníkjudýr í dagsins önn sem geta borist með höndunum í munn eða önnur líkamssvæði, í matvæli sem neytt er og á umhverfi sem snert er. Handhreinsun rýfur beina og óbeina snertingu og dregur úr líkum á smiti af mörgum algengum smitsjúkdómum, t.d. kvefi og inflúensu, nóróveiru, njálgi, salmonellu, kampýlóbakter og mörgum fleiri.

Handhreinsun er hægt að gera með handþvotti eða handsprittun. Þegar hendurnar eru þvegnar með vatni og handsápu þarf að nudda þær í a.m.k. 15 sekúndur og þurrka síðan með hreinu handklæði eða pappírshandþurrku.

Mikilvægt er að kenna börnum réttan handþvott og hvetja þau til að þvo sér við viðeigandi aðstæður. Ef hendurnar eru ekki sýnilega óhreinar dugar oft að spritta þær.

Miklar kröfur um vandaða handhreinsun eru gerðar til starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og þeirra sem starfa við matvælaframleiðslu og á veitingahúsum. En öllum er ráðlagt að hreinsa hendur við eftirtaldar aðstæður:

  • Áður, á meðan og eftir að hafa tilreitt mat
  • Áður en matar er neytt
  • Áður og eftir að hafa sinnt veikum eintaklingi
  • Áður og eftir að hafa snert húðrifu eða sár
  • Eftir að hafa notað salerni
  • Eftir að skipt hefur verið um bleiu eða barni eða öðrum verið hjálpað að lokinni salernisnotkun
  • Eftir að hafa snýtt sér, hóstað eða hnerrað
  • Eftir að hafa snert dýr, dýrafóður eða úrgang frá dýrum
  • Eftir að hafa snert gæludýramat 
  • Eftir að hafa snert á sorpi


Sjá nánar: Leiðbeiningar um handþvott og handsprittun á íslensku, ensku, pólsku, lítháísku og tælensku

Sóttvarnalæknir

<< Til baka