14.10.16

Enn aukning í ávísunum ADHD lyfja á Íslandi

Í samanburði við nágrannaþjóðir virðist Ísland skera sig úr í ávísunum lyfja til meðferðar við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD), sjá súlurit. Þetta eru lyf sem innihalda methylfenidat (Concerta, Ritalin, Medikinet, Methylphenidate Sandoz og Ritalin Uno). Í öllum löndunum eru einnig þekkt önnur lyf við ADHD, sem ekki innihalda methylfenidat, en þau eru aðeins notað í litlu hlufalli við methylfenidat lyf.

Ávísanir hér á landi endurspegla þann fjölda einstaklinga sem fær ávísað og eru greindir með ADHD sjúkdóminn. Árið 2015 fengu 4691 karlar og 3038 konur ávísað lyfjunum. Af aldurshópum eru það 10-14 ára drengir sem fá mest ávísað af lyfjunum en 11,5% af öllum drengjum á þessum aldri fá ávísað methylfenidati að minnsta kosti einu sinni árið 2015.

Eins og súluritið sýnir þá eru ávísanir hér að aukast jafnt og þétt á meðan ávísanir annarra landa standa í stað eða dragast saman, ef horft er á ávísanir frá 2011. Milli áranna 2014 og 2015 er aukningin 12,4% en svipuð aukning hefur átt sér stað á hverju ári hér á landi frá því 2011.

Súluritið sýnir ávísanir methylphenidate lyfja á Norðurlöndunum árin 2006-2015.

Embætti landlæknis, í samvinnu við Velferðarráðuneytið, hefur reynt að bregðast við þessari þróun m.a. með stofnun ADHD teymis á Landspítala til að auka gæði greininga meðal fullorðinna. Klínískar leiðbeiningar Embættis landlæknis voru endurskoðaðar 2012 þar sem skerpt var á meðferð og greiningu.

Ljóst er að þrátt fyrir aðgerðir er lyfjagjöf til ADHD sjúklinga á Íslandi mjög frábrugðin því sem þekkist meðal hinna Norðurlandanna og því má spyrja sig hvernig standi á því að svo sé. Ef algengi greininga er svipað á Norðurlöndunum má velta því fyrir sér hvaða önnur úrræði en lyfjagjöf hinar þjóðirnar eru að nota. Jafnframt má spyrja sig að því hvort þetta sé eðlileg þróun í meðferð ADHD hér á landi og hvort ekki þurfi að bregðast við á einhvern hátt í ljósi þess að þessi lyf séu efst á lista yfir þau lyf sem eru misnotuð af fólki með fíknivanda hér á landi.

Næsta Norðurlandaþjóð á eftir Íslandi í ávísunum methylfenidats er Svíþjóð en hér á landi eru ávísanir þessara lyfja 260% miðað við Svíþjóð árið 2015. Embætti landlæknis hvetur lækna til að horfa gagnrýnum augum á ávísanir þessara lyfja og/eða meta hvort í einhverjum tilfellum sé þörf á endurmati greininga.

 

Lárus S. Guðmundsson
Ólafur B. Einarsson

<< Til baka