21.07.16

Um Lyfjagagnagrunn Embættis landlæknis

Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis hefur verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Af því tilefni vill landlæknir taka fram eftirfarandi.

Grunnurinn hefur þríþættan tilgang:

  1. Heldur yfirlit um ávísanir og notkun lyfja á Íslandi
  2. Gerir Embætti landlæknis kleift að fylgjast með lyfjaávísunum lækna og bregðast við ef þörf krefur.
  3. Allir læknar geta ávísað lyfjum í gegnum grunninn og geta þannig séð hvort og hvaða lyf viðkomandi sjúklingur er að fá frá öðrum læknum og hann getur þá hagað ávísunum sínum í samræmi við það

Lyfjagagnagrunnurinn er í stöðugri þróun eins og annar hugbúnaður sem notaður er bæði í heilbrigðisþjónustu og annars staðar. Fylgst er gaumgæfilega með honum og ef niðurstöður úr honum sýna einhvers konar frávik er farið vandlega yfir þau til þess að kanna hvort um sé að ræða raunveruleg frávik eða hvort um gæti verið að ræða kerfisvillu eða innsláttarvillu.

Rétt er að hafa í huga að gagnagrunnar verða aldrei betri en þau gögn sem slegin eru inn í þá. Hvað snertir lyfjagagnagrunninn eru margir aðilar sem slá inn gögn í hann. Almennt er talið fullnægjandi ef áreiðanleiki grunns eins og lyfjagagnagrunnsins er um 90%. Á liðnum árum hafa komið upp forritunarvillur sem leitt hafa af sér ranga tölfræði en þær hafa aldrei ógnað öryggi einstakra sjúklinga. Þessar forritunarvillur hafa verið leiðréttar. Það er mat embættisins að áreiðanleiki grunnsins sé í dag innan ofangreindra viðmiðunarmarka.

Að lokum er rétt að árétta að lyfjagagnagrunnurinn er ekki notaður af heilbrigðisstarfsfólki í daglegum samskiptum sínum við sjúklinga að öðru leyti en sem fram kemur í lið 3 hér að ofan. Grunnurinn sem slíkur er því ekki áhættuþáttur fyrir einstaka sjúklinga á Íslandi. Embætti landlæknis mun halda áfram eins og verið hefur að tryggja það að lyfjagagnagrunnurinn sé eins áreiðanlegur og kostur er.

 

Landlæknir

<< Til baka