18.05.16

Íslenskt heilbrigðiskerfi er enn á rangri leið

Sjá stærri mynd

Fjölmörg mál eru nú á borði heilbrigðisráðherra sem munu beina þróun íslensks heilbrigðiskerfis á rétta braut ef þau verða að veruleika. Má þar nefna nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga með tilvísunarkerfi til sérfræðinga, fjármögnun vinnu við biðlista og, síðast en ekki síst, heilbrigðisstefnu allt til ársins 2022 sem enn hefur þó ekki verið send út til umsagnar.

Meðan beðið er eftir því að þessar aðgerðir fái nauðsynlega meðferð er heilbrigðiskerfið því miður enn á rangri braut. Sífellt fleiri sérfræðingar velja að minnka við sig vinnu eða hætta algjörlega störfum á Landspítala (LSH) og vinna í staðinn á eigin stofu þar sem þeir fá betra vinnuumhverfi og betri laun.

Heilbrigðisþjónusta sem byggist á einyrkjastarfi sérfræðinga er ekki í stakk búin til að takast á við vandamál sjúklinga með króníska sjúkdóma sem þarfnast aðkomu margra starfsstétta. Hlutastarf sérfræðinga á LSH veldur því að flæði sjúklinga á spítalanum verður hægara en ella auk þess sem öryggi sjúklinga er stefnt í hættu.

Starfsumhverfi lækna á LSH er þess eðlis að íslenskir læknar erlendis hafa takmarkaðan áhuga á að koma heim til starfa.

Landlæknir hefur ítrekað bent á það að hér sé þörf á skjótum aðgerðum ef ástandið í heilbrigðismálum þjóðarinnar á ekki að versna enn frekar. Eftirfarandi aðgerðir eru að mati landlæknis nauðsynlegar:

  • Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður.
  • Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði.
  • Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
  • Jafnframt verður LSH að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.
  • Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við heilbrigðisfyrirtæki (opinber eða einkarekin) sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem ríkið (greiðandinn) sér þörf fyrir.

Þessar aðgerðir þurfa ekki aðkomu Alþingis og ættu því að geta komið til framkvæmda eins fljótt og kostur er meðan beðið er eftir afgreiðslu þeirra mála sem nefnd voru í upphafi.

Embætti landlæknis hefur nýlega gert úttekt á hlutverki heilbrigðisstofnana landsins og komið með tillögur til úrbóta. Engin þeirra tillagna þarfnast lagabreytinga og ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að heilbrigðisráðuneytið komi þeim úrbótum til leiðar eins skjótt og mögulegt er.

Birgir Jakobsson
landlæknir

<< Til baka