18.05.16

Viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu

Sjá stærri mynd

Önnur útgáfa Landsáætlunar vegna heimsfaraldurs inflúensu (2016) er komin út á rafrænu formi. Hana má finna á vef Embættis landlæknis og á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Viðbragðsáætlunin segir fyrir um skipulag og stjórn aðgerða þegar til heimsfaraldurs inflúensu kemur.

Fyrsta útgáfa viðbragðsáætlunar vegna heimsfaraldurs inflúensu var gefin út árið 2008, en helstu breytingar í nýrri útgáfu eru þessar:

  1. Tekið hefur verið tillit til breytinga á tímaskeiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) vegna inflúensu. Þau voru sex en eru fjögur í dag. Samkvæmt þessari útgáfu hafa háskastig almannavarna verið aðlöguð að tímaskeiðum WHO. 
  2. Lögregluumdæmum á Íslandi hefur verið fækkað úr 15 í níu samkvæmt breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 og hafa sóttvarnaumdæmin verið aðlöguð að breyttri skipan lögregluumdæma samkvæmt reglugerð nr. 387/2015. 
  3. Vöktun í inflúensufaraldri hefur verið skilgreind frekar.
  4. Tekið hefur verið tillit til vaxandi fjölda ferðamanna og Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið að sér að sinna upplýsingamiðlun til ferðaþjónustuaðila þegar til heimsfaraldurs kemur.

Öllum þeim sem veittu aðstoð við gerð þessarar áætlunar eru færðar bestu þakkir fyrir.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka