02.03.16

Skaði vegna áfengisneyslu á aðra en neytandann

Nýlega komu út tvær greinar byggðar á rannsóknum um áhrif áfengisneyslu á þá sem eru í umhverfi þess sem drekkur. Rannsóknirnar eru hluti af norrænu samtarfsverkefni sem Embætti landlæknis tók þátt í fyrir Íslands hönd.

Í annarri greininni, Experienced Harm from Other People's Drinking: A Comparison of Northern European Countries, var rannsakað hvers konar skaða fólk verður fyrir vegna drykkju ókunnugra eða einhverja sem þeir þekkja ekki persónulega. Helstu niðurstöður voru að skaði eða óþægindi eru algengar í öllum þátttökulöndunum. Það sem fólk verðuroftast fyrir er ónæði að nóttu til sem truflar svefnfrið  en sjaldgæfara er að fólk verði fyrir beinum líkamsárásum. Konur og yngra fólk verða frekar fyrir skaða vegna drykkju annarra.

Hin greinin, Harm Experienced from the Heavy Drinking of Family and Friends in the General Population: A Comparative Study of Six Northern European Countries, fjallar um skaða sem fólk verður fyrir vegna áfengisdrykkju í fjölskyldu eða meðal vina. Fram kemur að skaði vegna áfengisdrykkju annarra er algengastur á Íslandi og Finnlandi.

Í íslensku niðurstöðunum kemur m.a. fram að hjá 47% svarenda er einhver í nánasta umhverfi þeirra, t.d. fjölskyldumeðlimur, fyrrverandi maki, vinur eða vinnufélagi sem hefur drukkið of mikið áfengi einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum.

Um 60% þeirra sögðu að áfengisneysla annarra hefði haft neikvæð áhrif á sig. Þetta þýðir að um 28% Íslendinga 18 ára og eldri hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra í sínu nánasta umhverfi.

Heldur fleiri konur en karlar sögðust hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisneyslu í nánasta umhverfi en nánast enginn munur var milli aldurflokka eða búsetu hvað þetta varðaði. Rúmlega 25% svarenda orðið fyrir áreitni eða ónæði af hendi drukkins fólks úti á götu eða almannafæri á síðastliðnum 12 mánuðum.

Niðurstöður úr rannsóknum af þessum toga eru mikilvægar í allri stefnumörkun í lýðheilsu- og áfengismálum, allt frá sviðum eins og aðgengi að áfengi til barnaverndar og vinnuverndar.

Greinarnar voru birtar í sérstakri útgáfu tímaritsins Substance Abuse: Research and Treatment um áhrif áfengisneyslu á aðra en neytandann. Hægt er að nálgast þessar greinar á slóðunum hér fyrir neðan og einnig má finna nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið á vef Norrænu velferðarvaktarinnar (NVC).

Experienced Harm from Other People's Drinking: A Comparison of Northern European Countries.

Harm Experienced from the Heavy Drinking of Family and Friends in the General Population: A Comparative Study of Six Northern European Countries.

Rafn M. Jónsson

Sveinbjörn Kristjánsson

<< Til baka