18.11.15

Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf

Sjá stærri mynd

18. nóvember ár hvert er haldinn Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf. Dagurinn, sem nú er haldinn í áttunda sinn, er að þessu sinni haldinn í samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og er ætlað að vekja athygli á þeirri hættu sem mönnum getur stafað af sýklalyfjaónæmum bakteríum og til að hvetja til ábyrgrar notkunar sýklalyfja.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og aðrar stofnanir sem málið varða telja að sýklalyfjaónæmi sé vaxandi í Evrópu og nýjustu tölur staðfesta að fjöldi sjúklinga sem sýkjast af sýklalyfjaónæmum gerlum er að aukast um alla Evrópu.

Skynsamleg notkun sýklalyfja getur hjálpað til við að stöðva þróun ónæmra baktería og aðstoðað við að halda sýklalyfjum virkum fyrir komandi kynslóðir.

Ein skýring á útbreiðslu ónæmisins er mikil og óábyrg notkun sýklalyfja. Sýklalyf gegna mikilvægu hlutverki í meðhöndlun alvarlegra sýkinga. Því er mikilvægt að þau séu notuð á ábyrgan hátt og á réttum forsendum. Það er á ábyrgð okkar allra.

Samkvæmt uppgjöri sóttvarnalæknis á sýklalyfjanotkun á Íslandi þá hefur sýklalyfjanotkun hér á landi minnkað lítillega frá árinu 2012. Einkum hefur notkunin minnkað stöðugt hjá börnum yngri en fimm ára


Sýklalyfjaónæmi á Íslandi
Á sýklafræðideild Landspítala er fylgst náið með þróun sýklalyfjaónæmis, og á heimasíðu deildarinnar eru birtar árlegar yfirlitstöflur um sýklalyfjanæmi valinna sýkla allt frá árinu 1998. Þar má sjá að sýklalyfjaónæmi hefur haldist nokkuð óbreytt frá árinu 2011.


Tvö heilsugæslusvæði á Íslandi hafa í samvinnu við sóttvarnalækni staðið að átaki um bætta notkun sýklalyfja og fyrirhugað er að útvíkka átakið til annarra svæða. Vonir standa til að að með slíku átaki megi bæta og minnka almenna notkun sýklalyfja.


Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins leggur áherslu á að það er á allra ábyrgð að stuðla að bættri notkun sýklalyfja og viðhalda þannig virkni þeirra. Á vef stofnunarinnar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka