29.10.15

Takmörkum neyslu á unnum kjötvörum

Sjá stærri mynd

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), International Agency for Research on Cancer (IARC), birti vísindagrein úr skýrslu mánudaginn 26. október sl. þar sem kynntar voru niðurstöður rannsókna á neyslu á unnum kjötvörum og rauðu kjöti og áhættu á krabbameini.

Unnar kjötvörur eru þar flokkaðar sem krabbameinsvaldandi og settar í sama flokk og t.d. reykingar, áfengi og asbest. Það þýðir þó ekki að það sé jafnhættulegt að borða unnar kjötvörur og að reykja.

Það hefur verið metið að fyrir hver 50 g af unnum kjötvörum sem neytt er daglega eykst hættan á ristilkrabbameini um 18%. Með unnum kjötvörum er átt við kjöt sem er reykt, saltað eða rotvarið. Sem dæmi má nefna saltkjöt, spægipylsu, beikon, pylsur, bjúgu, kjötfars, hangikjöt og skinku.

Það er talið líklegt að neysla á rauðu kjöti auki líkur á ristilkrabbameini en niðurstöðurnar eru ekki eins afdráttarlausar og fyrir unnu kjötvörurnar. Með rauðu kjöti er átt við t.d. nautakjöt, lambakjöt og svínakjöt.

Það kemur fram í greininni að hættan á að þróa ristilkrabbamein vegna neyslu á unnum kjötvörum er lítil fyrir einstaklinga en hún eykst með magninu af kjöti sem neytt er. Þar sem mikill fjöldi fólks borðar unnar kjötvörur þá er þetta nokkuð sem skiptir máli fyrir lýðheilsu.

Það kemur einnig fram að þetta þýði ekki að fólk þurfi að hætta að borða allt rautt kjöt og unnar kjötvörur en ef borðað er mikið af því sé rétt að minnka það.

Kjöt í hófi

Þessar niðurstöður sem nú eru kynntar eru í samræmi við niðurstöður sem World Cancer Research Fund (WCRF) hefur áður birt og er meðal annars grundvöllur fyrir norrænar og íslenskar ráðleggingar um kjötneyslu sem nýlega voru birtar hér á landi.

Þar er ráðlagt að neyta kjöts í hófi og velja fyrst og fremst óunnið magurt kjöt. Takmarka skal neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku, sérstaklega skal takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi.

Í kjöti eru mikilvæg næringarefni á borð við prótein, járn og önnur steinefni þannig að hófleg neysla á óunnu, mögru kjöti getur því verið hluti af hollu mataræði. Það er hins vegar hægt að setja saman hollt fæði án kjöts og auka þá fiskur, egg, mjólkurvörur og baunir enn frekar á næringargildi fæðisins.

Í ráðleggingum um mataræði, er meiri áhersla en áður á mataræðið í heild sinni, frekar en einstök næringarefni og á fæði úr jurtaríkinu sem er trefjaríkt frá náttúrunnar hendi, til dæmis á grænmeti, ávexti, heilkornavörur, baunir, linsur, hnetur og fræ.

Mestu skiptir að fæðuvalið sé næringarríkt og fjölbreytt og magnið hæfilegt. Með það að leiðarljósi er hægt að njóta þess að borða allan mat af og til, í hóflegu magni, og engin ástæða til að útiloka einstakar fæðutegundir.

Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Þannig má minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum auk þess sem auðveldara er að halda heilsusamlegu holdafari.

Nánari upplýsingar um mataræði má einnig fá á www.heilsuhegdun.is
 

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

Ítarefni:

Fréttatilkynning frá International Agency for Research on Cancer, WHO

Spurningar og svör frá WHO um krabbameinsáhættu við neyslu á rauðu kjöti og unnum kjötvörum

<< Til baka