20.10.15

Embætti landlæknis ítrekar andstöðu við sölu áfengis í almennum verslunum

Vegna umræðu á Alþingi um frumvarp til laga um sölu áfengis í almennum verslunum vill Embætti landlæknis ítreka afstöðu sína gegn þeirri breytingu sem lögð er fram í umræddu frumvarpi.

Breytingin felur í sér að allt áfengi, jafnt bjór, vín og sterkt áfengi, er gert aðgengilegt í almennum verslunum. Breytingar til aukins aðgengis, eins og lagt er til í frumvarpinu, eru til þess fallnar að auka heildaráfengisneyslu, sem leiðir til aukinna skaðlegra afleiðinga fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Umræddar breytingar stangast á við opinbera stefnumörkun í áfengsimálum, jafnt hér á landi og á alþjóðavísu. Má þar nefna: 

  • Stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 
  • Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum 2013 –2020 
  • European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012–2020 
  • Health 2020 policy framework and strategy 

og nú síðast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Global goals).

Þá sendu aðstandendur alþjóðlegar ráðstefnu, Global Alcohol Policy Conference,  sem lauk nýverið í Edinborg, frá sér yfirlýsingu um aðgerðir og stefnumótun á áfengismálum.

Embætti landlæknis hefur áður fjallað um þetta málefni og lýst andstöðu sinni við frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi, sjá frétt á vef embættisins 5. mars 2015, Aukið aðgengi að áfengi – aukinn skaði.

Birgir Jakobsson
landlæknir

<< Til baka