10.09.15

Göngum í skólann 2015

Sjá stærri mynd

Göngum í skólann var formlega sett í 9. skipti í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ miðvikudaginn 9. september. Jóhanna Magnúsdóttir, skólastjóri Lágafellsskóla, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tóku til máls og hvöttu nemendur til þess að nota virkan ferðamáta á leið sinni í og úr skólanum.

Að þessu tilefni var nýuppfærður vefur Samgöngustofu www.umferd.is opnaður og kynnti Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, kennari í Grundarskóla á Akranesi, vefinn. Vefurinn er fræðsluvefur um umferðamál fyrir nemendur, kennara og foreldra og þar má finna fjölbreytt efni fyrir alla.

María Ólafsdóttir, evróvisionfari söng nokkur lög við mikla hrifningu viðstaddra og tóku nemendur vel undir með henni. Nemendur Lágafellsskóla sungu skólasöng Lágafellsskóla og lagið Göngum, göngum með nýjum texta sem tónlistarkennari skólans samdi.  Að lokum gengu nemendur, starfsfólk og gestir hring í skólahverfinu.

Þeir sem standa að verkefninu hér á landi eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Heimili og skóli.

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga,  hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann. Farið er yfir reglur um öryggi á göngu og á hjóli á sama tíma og börnin eru frædd um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með verkefninu er einnig kappkostað að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.

Skráning fer mjög vel af stað og enn er hægt skrá skóla til leiks. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is

Ingibjörg Guðmundsdóttir
verkefnisstjóri Heilsueflandi grunnskóla

 

<< Til baka