11.08.15

Heilsueflandi samfélag í Kópavogi

Sjá stærri mynd

Kópavogsbær varð í dag aðili að verkefninu Heilsueflandi samfélag. Birgir Jakobsson landlæknir, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs, rituðu undir samstarfssamning um verkefnið, en það miðar að því að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa Kópavogsbæjar á markvissan hátt.

Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Í samstarfi Kópavogsbæjar og Embættis landlæknis eru lagðir til grundvallar fjórir áhrifaþættir heilbrigðis sem vinnuhópur verkefnisins Heilsueflandi Kópavogur hefur skilgreint á þessa leið:

• Næring
• Hreyfing
• Geðrækt
• Lífsgæði

„Heilsueflandi samfélag er spennandi verkefni sem fellur vel að þeirri áherslu sem við leggjum á lýðheilsumál í Kópavogi." sagði Ámann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs við undirritun samstarfssamningsins í dag.

Á meðfylgjandi mynd eru Birgir Jakobsson landlæknir, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, við undirritun samstarfssamnings um þátttöku Kópavogs í verkefninu Heilsueflandi samfélag.

Ítarefni: Heilsueflandi grunnskóli og Heilsueflandi framhaldsskóli


Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis

Héðinn Svarfdal Björnsson

verkefnisstjóri

 

<< Til baka