12.03.15

5 ára afmæli Skráargatsins á Norðurlöndunum og nýjar skilgreiningar

Sjá stærri mynd

Þann 4. mars sl. var haldin ráðstefna í Stokkhólmi af því tilefni að Skráargatið hefur verið samnorrænt opinbert matvælamerki í fimm ár.

Skráargatið var formlega tekið upp á Íslandi þann 13. nóvember 2013 en það hefur verið í notkun í Svíþjóð í tæplega 25 ár. Árið 2009 var merkið formlega tekið upp í Noregi og Danmörku og varð þar með að samnorrænu merki.

Á ráðstefnunni í Stokkhólmi var m.a. fjallað um mikilvægi norræns samstarfs sem verið hefur í kringum Skráargatið síðustu ár sem og áhrif merkisins á aukningu á fjölda heilsusamlegra vara á markaði. Einnig var fjallað um niðurstöður neytendakannana á Norðurlöndunum um þekkingu og viðhorf neytenda til Skráargatsins og var starfsmaður embættisins með erindi.

Þekking og viðhorf Íslendinga til Skráargatsins árið 2015

Helstu niðurstöður könnunar á Íslandi um þekkingu og viðhorf neytenda til Skráargatsins, framkvæmd í janúar 2015:

  • 90 % Íslendinga þekkja Skráargatsmerkið eða hafa heyrt um það
  • 62 % Íslendinga tengja Skráargatsmerkið við hollustu
  • 93 % Íslendinga treysta Skráargatsmerkinu
  • Einungis 13% vita að íslensk stjórnvöld standa að Skráargatinu hér á landi en 33% telja það vera matvælaiðnaðinn eða Samtök iðnaðarins.

Sjá nánar í skýrslunni:
Skráargatið – Könnun á viðhorfi og þekkingu. 2015

Skráargatið hefur áhrif til bættrar lýðheilsu

Á ráðstefnunni í Stokkhólmi voru kynntar niðurstöður rannsókna sem sýna að Skráargatið geti stuðlað að hollara mataræði. Rannsóknirnar miðuðu að því að kanna hvaða áhrif það hefur á næringargildi fæðisins ef valdar eru vörur með Skráargatinu í stað hefðbundinna vara.

Samkvæmt sænskri rannsókn þá myndi magn heilkorns margfaldast við það að velja skráargatsmerkt  brauð og pasta. Neysla mettaðrar fitu myndi minnka um 40% og neysla viðbætts sykurs minnka um 9%. Niðurstöður danskrar rannsóknar sýna að hægt væri  að draga úr neyslu mettaðrar fitu um  27% og minnka saltneyslu um 1 gramm á dag. Jafnframt gætu Danir, með aðstoð Heilkornsmerkisins, aukið heilkornaneyslu sínu um 76%.

Sjá nánar í frétt á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Skráargatið á enn fleiri matvæli

Með nýrri reglugerð um Skráargatið sem mun taka gildi innan skamms geta fleiri matvæli borið Skráargatsmerkið. Það auðveldar neytendum enn frekar að velja fæði sem er í takt við opinberar ráðleggingar um mataræði.

Til þess að matvæli geti borið Skráargatið þurfa þau að innihalda minna salt og sykur, hollari fitu og meira af heilkorni og trefjum en sambærileg matvæli sem ekki geta borið Skráargatið. Mestu breytingar á skilyrðum fyrir notkun Skráargatsins í nýju reglugerðinni varða minna salt og hollari fitu.

Nýir matvælaflokkar bætast við og verða samtals 33 í stað 25 flokka í fyrri reglugerð. Sem dæmi um ný matvæli sem geta borið Skráargatsmerkið eru sósur og ósaltaðar hnetur auk ýmissa glúten- og laktósalausra matvara í sumum matvælaflokkum reglugerðarinnar. Auk þess mega fjölmörg matvæli bera Skráargatið eins og t.d. ferskir ávextir og grænmeti, fiskur og tilbúnir réttir ýmiskonar.

Fleiri óforpökkuð matvæli geta borið Skráargatið en áður var. Auk óunnins fisks, grænmetis og ávaxta verður hægt að nota Skráargatið á óunnið kjöt, brauð, hrökkbrauð og osta sem ekki er forpakkað að því tilskildu að vörurnar uppfylli skilyrðin fyrir notkun merkisins sem sett eru í reglugerðinni.

Nýja reglugerðin um Skráargatið tók gildi í Svíþjóð, Noregi og Danmörku þann 1. mars sl. og mun taka gildi hér á landi á næstunni.

Lestu meira um Skráargatið á www.skraargat.is

 

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

<< Til baka