26.02.15

Bólusetningar barna

Sjá stærri mynd

Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í samfélaginu að undanförnu um bólusetningar barna á Íslandi vill sóttvarnalæknir leggja áherslu á að bólusetningar barna hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim verið góð.

Ríkur vilji er meðal íslenskra foreldra að bólusetja börnin sín, eða um 97%, samkvæmt könnun sem gerð var af Háskóla Íslands fyrir örfáum árum. Þrátt fyrir þessa staðreynd má ekki slaka á og heilbrigðisyfirvöld, foreldrar og samfélagið allt verður sífellt að vera á verði og vakandi fyrir því að viðhalda góðri þátttöku í bólusetningum.

Sóttvarnalæknir hefur bent á að í sumum aldurshópum er nauðsynlegt að auka þátttökuna. Í því sambandi er einkum verið að horfa til aldurshópanna 12 mánaða og 4 ára en þátttakan hjá þessum hópum hefur verið undir væntingum. Ástæður þessa eru margvíslegar, s.s. tímabundin veikindi barna, foreldrar að byrja að vinna eftir barnsburðaleyfi eða flutningur á milli landshluta eða landa.

Mikilvægt er að bæði foreldrar og heilsugæslan séu vakandi fyrir því að barn kunni að vera vanbólusett og bæta þar úr.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hættuna á alvarlegum aukaverkunum af völdum bólusetninga. Í þessari umræðu hefur oft gleymst að geta um áhættuna sem fylgir sýkingunum sem bólusett er gegn.

Rannsóknir og yfirlýsingar ábyrgra og óháðra aðila eins og Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sýna að alvarlegar aukaverkanir af bóluefnum sem notuð eru í barnabólusetningum eru mjög fátíðar en geta sést hjá u.þ.b. einum af hverjum 500.000 – 1.000.000 bólusettum. Þetta er stjarnfræðilega minni áhætta heldur en sést af völdum sjúkdómanna sem bólusett er gegn, sjá töfluna Alvarlegar afleiðingar og dánartíðni sjúkdóma sem bólusett er gegn.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka