28.11.14

Vegna fyrri fréttar um ávísanir á tauga- og geðlyf

Í framhaldi af frétt sem birtist á vef Embættis landlæknis 14. nóvember síðastliðinn undir fyrirsögninni „Ávísunum á tauga- og geðlyf á Íslandi hefur fjölgað frá 2003 til 2013" vill Embætti landlæknis varpa frekara ljósi á tölur um aukna notkun tauga- og geðlyfja.

Landsmönnum fjölgaði á umræddum áratug úr 288 þúsund íbúum árið 2003 í 321 þúsund árið 2013. Slík fjölgun hefur eingöngu áhrif á heildarnotkun lyfja, en tölur um lyfjanotkun sem embættið birtir eru ævinlega miðaðar við tiltekinn fjölda (notkun á 1000 íbúa). Af þeim sökum hefur fjölgun íbúa ekki áhrif á þessar tölur.

Hins vegar hefur breytt aldurssamsetning þjóðarinnar áhrif á lyfjanotkunartölurnar. Árið 2003 voru einstaklingar eldri en 60 ára ríflega 44 þúsund og árið 2013 voru þeir orðnir nálægt 58.500 og vitað er að lyfjanotkun eykst að jafnaði með hærri aldri.

Mynd 1.Graf sem sýnir ávísanir þunglyndislyfja til kvenna og karla á Íslandi á árunum 2006 til 2013. (JPG)

Ávísunum á lyf við þunglyndi (ATC kóði N06A) fjölgaði um 6,2% meðal karla og 7,5% meðal kvenna á milli áranna 2012 og 2013 (sjá mynd 1). Frá 2006 til 2010 varð lítil aukning í notkun þessara lyfja en árið 2010 bættist við m.a. skráning lyfseðla í vélskömmtun á hjúkrunarheimilum. Árið 2012 var sú skráning komin að fullu inn í tölurnar.

 Mynd 2. Fjöldi barna sem fær ávísað methylfenidati og melatónín svefnlyfi á sama tíma á árunum 2007–2013 (JPG)

Ávísanir svefnlyfja á börn sem eru á lyfjum við ofvirkni með athyglisbresti (ADHD) eru að mestu leyti bundnar við melatónín (Circadin) (sjá mynd 2), en það lyf kom á markað hér á landi árið 2007. Áður en Circadin kom til sögunnar var lítið um að börn sem voru í meðferð með metýlfenidati fengju ávísað svefnlyfjum.


Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri lyfjagagnagrunns
Magnús Jóhannsson læknir
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur

<< Til baka