26.11.14

Næring að norrænum hætti – önnur alþjóðlega næringarráðstefnan (ICN2)

Sjá stærri mynd

Opnað hefur verið vefsetrið NordicNutrition.org þar sem fjallað er um samstarf á sviði næringar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Á vefnum eru upplýsingar um hvernig norrænu þjóðirnar hafa unnið saman að því að stuðla að bættu mataræði þjóðanna.

Þar er fjallað um nýju Norrænu næringarráðleggingarnar sem voru kynntar í október 2013, en löng hefð er fyrir samstarfi á því sviði eða frá 1980. Einnig eru upplýsingar um Norrænu aðgerðaráætlunina um bætta heilsu og lífsgæði með næringu og hreyfingu (A better health and quality of life through diet and physical activity), sem var innleidd árið 2006, og hefur lagt grunninn að ýmsu samstarfi síðan.

Sem dæmi um samstarfið má nefna samnorræna vöktun á mataræði, hreyfingu og holdafari sem fór fyrst fram árið 2011 og önnur umferð haustið 2014. Annað dæmi er norræna merkið Skráargatið sem var innleitt hér á landi í nóvember 2013 og er ætlað að gera neytendum það einfalt að velja hollara. Um þetta er fjallað á vefnum ásamt ýmsu öðru áhugaverðu efni.

Vefurinn var opnaður í tengslum við aðra alþjóðlegu næringarráðstefnuna (ICN2) sem haldin var í Róm dagana 19.–21. nóvember 2014 á vegum Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Þar stóðu norrænu þjóðirnar sameiginlega að viðburði ásamt Brasilíu, Þýskalandi og tengslaneti WHO–Evrópu um hvernig hægt er að takast á við þá áskorun sem offita er. Viðburðinum stýrði Tim Lang, prófessor við City University í London. 

ICN2 ráðstefnan – Betri næring – betra líf
Aðalmarkmið ICN2 ráðstefnunnar í Róm var var að tryggja áætlun til að takast á við næringarvandamál 21. aldarinnar á heimsvísu. Þótt mikil áhersla væri á hungur og vannæringu er offita einnig vaxandi vandamál.

Eftirfylgni ráðstefnunnar verður byggð á Rómarsáttmálanum um næringu sem samþykktur var á ráðstefnunni auk aðgerðaáætlunar

Þann 18. september 2014 var samþykkt ný evrópsk aðgerðaáætlun á sviði matvæla og næringar. Markmið aðgerðaáætlunarinnar er að efla heilsu og draga úr sjúkdómabyrði af völdum fæðutengdra áhættuþátta langvinnra sjúkdóma.

 

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar

<< Til baka