Örugg saman: kennsluefni fyrir unglinga kynnt í dag
Embætti landlæknis hefur gefið út á prenti kennsluefni um heilbrigð samskipti sem hugsað er sem forvarnarefni gegn andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í samböndum unglinga.
Námsefnið, sem ber heitið Örugg saman, byggir á gagnreyndum aðferðum og er ætlað til kennslu fyrir 9. og 10. bekk grunnskóla. Námsefnið hefur verið tilraunakennt í skólum og félagsmiðstöðvum hér á landi og verið vel tekið bæði af nemendum og kennurum.
Vonast er til þess að þetta námsefni verið tekið til kennslu í sem flestum grunnskólum á landinu, enda fyrsta heildstæða námsefnið af þessu tagi á Íslandi, og kærkomin viðbót við þau mikilvægu verkefni sem unnin hafa verið í tengslum við ofbeldi á undanförnum árum, m.a. í tengslum við Vitundarvakningu velferðarráðuneytisins, innanríkisáðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Námsefnið verður formlega kynnt í Smáraskóla þann 2. desember nk. Dagskráin hefst kl. 15:00 með stuttri kynningu á efninu og tilurð þess.
Allir eru velkomnir á þessa kynningu, bæði starfsfólk skóla og félagsmiðstöðva, foreldrar og aðrir áhugasamir. Að lokinni kynningu verður haldin vinnustofa fyrir kennara í kennslu efnisins sem gert er ráð fyrir að standi til kl. 17:00.
Fyrirspurnum um efnið og hvernig megi nálgast það skal beint til Ingibjargar Guðmundsdóttur, verkefnissstjóra Heilsueflandi grunnskóla.
Ingibjörg Guðmundsdóttir
verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla
Jenný Ingudóttir
verkefnastjóri ofbeldisforvarna
Sigrún Daníelsdóttir
verkefnastjóri geðræktar