14.11.14

Ávísunum á tauga- og geðlyf á Íslandi hefur fjölgað frá 2003 til 2013

Um 70% aukning hefur orðið á skráðum ávísunum lækna á tauga- og geðlyf á tímabilinu frá 2003 til 2013 í lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis, sjá mynd 1.

Margar skýringar eru á þessari aukningu og má þar fyrst nefna að skráning ávísana er betri í dag en hún var árið 2003. Þar munar mest um að vélskömmtuð lyf voru ekki skráð í grunninn fram til ársins 2010. Af heildarsölu tauga- og geðlyfja árið 2009 var hlutfall ávísana á þessi lyf 81% en var orðið 84% árið 2013 og því voru um 16% þessara lyfja gefin inni á sjúkrastofnunum.

Þá má nefna að landsmönnum hefur fjölgað, en árið 2003 var fjöldi landsmanna 288 þúsund og árið 2013 voru þeir orðnir 321 þúsund. Þá hefur það einnig áhrif að þjóðin er að eldast, árið 2003 voru einstaklingar eldri en 60 ára ríflega 44 þúsund en árið 2013 eru þeir nálægt 58.500 og vitað er að lyfjanotkun eykst að jafnaði með hærri aldri.


Notkun þunglyndislyfja mest á Íslandi innan OECD-ríkja
Af lyfjaflokkum sem teljast til tauga- og geðlyfja eru þunglyndislyf ásamt svefnlyfjum og róandi lyfjum mest áberandi í dagskömmtum talið (DDD). Fram kemur í skýrslu OECD frá 2012 í samanburði á notkun þessara lyfja milli allra landanna fyrir 2010 að notkun þunglyndislyfja er mest á Íslandi.

Engin ein skýring finnst fyrir því af hverju notkun þunglyndislyfja er þetta mikil á Íslandi. Að baki þessari notkun eru margir einstaklingar, en árið 2013 fengu 39 þúsund einstaklingar ávísað þunglyndislyfjum og 34 þúsund fengu ávísað svefnlyfjum og róandi lyfjum að minnsta kosti einu sinni.

Árið 2012 og 2013 gerðist það í fyrsta skipti frá því að skráning hófst að fjöldi þeirra sem fengu ávísað svefnlyfjum og róandi lyfjum dróst saman. Það vekur athygli að fullorðnum einstaklingum sem fengu lyfjunum ávísað fækkaði en fjöldi barna og ungmenna jókst hins vegar, sjá mynd 2.

Mynd 2. Ávísanir tauga- og geðlyfja á Íslandi 2003-2013

Hvers vegna börnum og ungmennum fjölgar sem þurfa á þessum lyfjum að halda þarf að skoða betur, en ein skýring kann að vera sú að mörg börn sem fá örvandi lyf við ADHD fá jafnframt ávísað svefnlyfjum og róandi lyfjum.

Á mynd 3 kemur fram fjöldi fullorðinna og barna sem fá ávísað metylfenídat-lyfjum(Rítalín, Rítalín Uno, Concerta, Methylfenídat Sandoz) á sama tíma (innan 60 daga) og þeir fá ávísað svefnlyfjum og róandi lyfjum. Það svefnlyf sem er mest notað á Íslandi er zopiklón (Imovane, Zopiclone Actavis, Zopiklon Mylan) og margir einstaklingar fá lyfinu ávísað í mjög langan tíma, í marga mánuði eða jafnvel árum saman. Um zopiklón segir í sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar að meðferð eigi ekki að vara lengur en í 2–4 vikur.

 

Vonir standa til að samtenging sjúkraskrárkerfa og aðgengi lækna að nýjum lyfjagagnagrunni geti dregið úr notkun ávanabindandi lyfja sem eru stór hluti tauga- og geðlyfja.

Sjá meira um sama efni: Frétt 28. nóvember 2014


Heimildir: Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis, Hagstofa Íslands, Lyfjastofnun, http://www.oecd.org/els/health-systems/Item4JointSessionPharmaceuticalconsumption.pdf

 

Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri lyfjagagnagrunns
Magnús Jóhannsson læknir
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur

<< Til baka