27.10.14

Heilsueflandi samfélag í Dalvíkurbyggð

Sjá stærri mynd

Við athöfnina skrifuðu Geir Gunnlaugsson landlæknir (t.v.) og Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, undir samstarfssamning

Dalvíkurbyggð varð formlega aðili að verkefninu Heilsueflandi samfélag við sérstaka athöfn sem fór fram fimmtudaginn 23. október sl. í Íþróttamiðstöð bæjarins. Við athöfnina skrifuðu Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, og Geir Gunnlaugsson landlæknir undir samstarfssamning þess efnis að Dalvíkurbyggð ætli að verða fullgildur þátttakandi í verkefninu.

Með samningum mun Dalvíkurbyggð í samstarfi við Embætti landlæknis hefja markvissa og heildræna heilsueflingu í bænum í samræmi við þau stefnumið verkefnisins að hafa heilsueflingu í forgrunni í þjónustu og stefnumótun sveitarfélagsins. Í Heilsueflandi samfélagi er lögð áhersla á að vinna með fjóra meginþætti:

  • Hreyfingu
  • Næringu
  • Líðan
  • Lífsgæði

Dalvíkurbyggð hyggst setja eitt af þessum atriðum í forgang á ári hverju en hafa þó hin atriðin jafnframt ofarlega í huga. Fyrsta árið verður áherslan á hreyfingu.

Í tilefni af undirritun samstarfssamnings og að fyrsta árið verður tileinkað hreyfingu var íbúum Dalvíkurbyggðar boðið upp á heilsuviku frá 20. – 25. október í íþróttamiðstöðinni þar sem hægt var að fara frítt í sund og líkmsrækt og fá leiðsögn þjálfara í þeim greinum.

Héðinn Svarfdal Björnsson

<< Til baka