08.10.14

Áfengi og heilsa landsmanna

Fyrir Alþingi liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum er varða verslun með áfengi. Með frumvarpinu er lagt til að einkasala ÁTVR á áfengi verði aflögð.

Andstætt því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu benda allar alþjóðlegar rannsóknir til þess að afnám einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur sýna rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála.

Bókin Alcohol: No Ordinary Commodity - Research and Public Policy eftir Babor o.fl., kom út í endurbættri útgáfu árið 2010. Þar er rýnt í allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum. Þar kemur meðal annars fram að áfengi getur valdið líkamlegum, andlegum og félagslegum skaða vegna eituráhrifa á líkamann, vímu og fíknar. Meginskýringin á samfélagslegu tjóni af völdum áfengis er vegna vímunnar sem hefur í för með sér ofbeldi, umferðarslys og önnur slys.

Samkvæmt skýrslunni Global status report on alcohol and health frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2012 rekja 5,9% dauðsfalla í heiminum til áfengis. Hlutfallið er hæst, eða 13,3%, í Evrópu þar sem áfengisneysla er einnig mest (mynd 1). Á sama hátt má rekja um 5% af sjúkdómabyrði og slysa á heimsvísu til áfengisneyslu.

 Hlutfall dauðsfalla sem rekja má til áfengisneyslu eftir mismunandi svæðum í heiminum.

Mynd 1. Hlutfall dauðsfalla sem rekja má til áfengisneyslu eftir mismunandi svæðum í heiminum.

Heimild: Global status report on alcohol and health 2014 (World Health Organization)

Samkvæmt skýrslunni er einnig sterkt samband milli óhóflegrar áfengisneyslu og ofbeldis af ýmsum toga, s.s heimilisofbeldi, vanrækslu barna, nauðgana og ofbeldis meðal ungmenna.

Þá eru ótalin þau áhrif sem áfengisneysla hefur á aðra en þann sem þess neytir og samfélagið í heild. Í Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðis-
málastofnunarinnar
kemur meðal annars fram að þessi áhrif eru ekki minni en vegna óbeinna reykinga og mun meiri en vegna notkunar ólöglegra vímuefna.

Aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er því líklegt til að auka tíðni ofbeldis og annarra samfélagslegra vandamála sem geta tvöfaldað samfélagslegan kostnað vegna áfengisneyslu. Því verður að skoða heildarmyndina áður en einkasala ríkisins á áfengi er afnumin, ekki síst í ljósi þess að Alþingi er nú einnig með til skoðunar frumvarp um aðgerðir til að draga úr heimilisofbeldi.

 

Leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu
Sterkur vísindalegur grunnur er fyrir virkum aðgerðum til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Stýring á aðgengi að áfengi er árangursrík leið til að takmarka áfengisneyslu og um leið mjög virk forvarnaraðgerð.

Rannsóknir á takmörkun aðgengis sýna að takmörkun afgreiðslutíma, fjölda söludaga og sölustaða helst í hendur við minni neyslu og minna tjón af völdum hennar. Þetta kemur meðal annars fram í Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu til að draga úr skaðlegri notkun áfengis 2012–2020 og Heilsa 2020 (sjá ítarefni að neðan) en hún leggur grunn að forvarnarstarfi stofnunarinnar til ársins 2020.  

Verð og skattlagning áfengis er leið sem margar þjóðir nota og rannsóknir hafa sýnt fram á að verðlagning hefur áhrif á neysluna. Enn fremur sýna hagtölur að samhengi er milli hækkunar áfengisskatta, áfengisverðs og fækkunar vandamála sem rekja má til áfengisdrykkju.

Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni er aflétt aukist heildarneysla áfengis.

Athygli vekur að í fyrrnefndri bók Babors og félaga kemur fram að fræðsla skilar ekki mælanlegum árangri en opinberar aðgerðir verulegum. Mátu höfundarnir 32 leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Niðurstöður þeirra benda til að eftirfarandi tíu leiðir standi upp úr þegar móta skal áfengisstefnu:

 

  1. Aldurstakmarkanir við áfengiskaup
  2. Ríkiseinkasala áfengis
  3. Takmarkanir á sölutímum og söludögum
  4. Takmarkaður fjöldi sölustaða
  5. Áfengisskattar
  6. Lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna
  7. Eftirlit með ölvunarakstri
  8. Ökuleyfissvipting sem viðurlög við ölvunarakstri
  9. Ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum
  10. Stutt úrræði handa fólki sem drekkur mikið (áhættuhópi)

Þessar niðurstöður renna gildum stoðum undir þá áfengisstefnu sem hefur verið mótuð á Íslandi. Sú breyting á löggjöf um aðgengi og verð á áfengi sem nú er til umfjöllunar á Alþingi getur því haft umtalsverðar afleiðingar fyrir líf og heilsu einstaklinga og lýðheilsu hér á landi.

Landlæknir vill af þessu tilefni vekja athygli á Stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem samþykkt var af heilbrigðisráherra fyrr á árinu. Í stefnunni kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi, ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum, við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi, ólögleg vímuefni og misnotkun ávana- og fíknilyfja og vefaukandi stera.

Eitt markmiða stefnunnar er að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Mikilvægt er því að lýðheilsusjónarmið verði einnig höfð að leiðarljósi í komandi umræðu um afnám einkasölu á áfengi.

 

Geir Gunnlaugsson
landlæknir


Ítarefni:
Global status report on alcohol and health 2014

Áfengi – engin venjuleg neysluvara. Stutt íslensk þýðing á samantekt úr bókinni Alcohol – no ordinary commodity. (PDF)

Health 2020 policy framework and strategy

Áfengi - aðgengi - áhrif (umfjöllun frá 2005)

Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum 2013 –2020 (PDF)

European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012-2020 (PDF)

Stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020

Rannsóknarskýrslur um áfengismál (PDF). Samantekt, gerð í október 2014, um rannsóknarskýrslur um áfengi, neyslumynstur áfengis, áhrif áfengisneyslu á einstaklinga og samfélög, áhrif breytinga á sölufyrirkomulagi áfengis og gagnreyndar aðgerðir til að draga úr eða sporna við skaðlegum áhrifum áfengis. 

<< Til baka