12.09.14

Úttektir á Landspítala

Sjá stærri mynd

Í dag kemur út á vef Embættis landlæknis úttekt á lyflækninga-
deildum lyflækningasviðs Landspítala (LSH). Er það önnur úttekt embættisins á tveimur árum á klínískri starfsemi spítalans. Sú fyrri fjallaði um geðsvið sjúkrahússins.

Úttekt á lyflækningadeildum lyflækningasviðs LSH
Úttektin, sem gerð var á fyrri hluta þessa árs, náði ekki til endurhæfingar- og öldrunarlækningadeilda né heldur til líknardeildar.

Markmið úttektarinnar var að skoða öryggi og gæði valdra þjónustuþátta á umræddum deildum í þeim megintilgangi að benda á leiðir til úrbóta.

Úttektin tók meðal annars til þátta sem varða stefnu, þjónustu, mannauðsmál, gæði, öryggi, skráningu, atvik, kvartanir og húsnæði.

Í heild má segja að lyflækningadeildirnar sinni umfangsmikilli og fjölbreyttri starfsemi og hafi yfir að ráða metnaðarfullu starfsfólki sem sinnir starfi sínu af mikilli fagmennsku, oft á tíðum við erfiðar aðstæður. Deildirnar sinna algengustu og alvarlegustu heilsufarsvandamálum landsmanna og er stærsti hluti sjúklinga lagður inn vegna bráðra veikinda.

Niðurskurður liðinna ára hefur tekið sinn toll og því brýnt er að gera ýmsar úrbætur til að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.

Skýrslan er birt á vef embættisins og þar kemur m.a. fram hverjar eru brýnustu aðgerðir sem grípa þarf til varðandi húsnæði og aðstöðu, mannauð og verkferla, að mati embættisins, en auk þess hefur skýrslan að geyma fjölmargar ábendingar um úrbætur.

Lesa nánar: Úttekt. Lyflækningasvið Landspítala. Mat á gæðum og öryggi þjónustu lyflækningadeilda (PDF)


Úttekt á geðsviði LSH

Á síðasta ári gerði Embætti landlæknis sambærilega úttekt á þjónustu geðsviðs Landspítala. Markmið þeirrar úttektar var einnig að skoða öryggi og gæði á sviðinu í þeim megintilgangi að benda á leiðir til úrbóta. Úttektin tók til sömu þátta og úttekt á lyflækningadeildum lyflækningasviðs.

Geðsvið LSH veitir almenna og sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er lögð á bráðaþjónustu og endurhæfingu. Þjónustan er fjölbreytt og meðal annars er unnið með mannlega hegðun og félagslegar aðstæður og leitað er samfélagslegra úrlausna um leið og tekið er mið af réttindum sjúklinga.

Líkt og á lyflækningadeildum sinnir starfsfólk geðsviðs starfi sínu af metnaði og fagmennsku. Flest starfsfólk sem rætt var við fannst starfið gefandi þrátt fyrir mikið álag og erfið starfsskilyrði. Ástand húsnæðis geðsviðsins er víða ábótavant og stenst ekki ætíð kröfur nútímans.

Skýrsluna má nálgast á vef embættisins og þar koma m.a. fram helstu ábendingar Embættis landlæknis um úrbætur auk fjölmargra tillagna.

Lesa nánar: Úttekt. Geðsvið. Mat á gæðum og öryggi þjónustu (PDF)
 

Laura Sch. Thorsteinsson
Leifur Bárðarson

<< Til baka