07.04.14

Lítið bit – mikil hætta

Sjá stærri mynd

Í dag, 7 apríl 2014, er alþjóða-
heilbrigðisdagurinn. Er hann tileinkaður baráttunni gegn sjúkdómum sem berast með smitferjum, einkum skordýrum. Á hverju ári sýkist yfir einn milljarður manna og meira en milljón manns látast af völdum slíkra sjúkdóma.

Meir en helmingur mannkynsins á það á hættu að smitast af sjúkdómum á borð við malaríu, beinbrunasótt, Leishmanssýki, Borrelíosa - Lyme sjúkdómur, blóðögðusýki og gulusótt sem berast með moskítóflugum, öðrum flugum, mítlum, vatnasniglum og öðrum smitferjum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur áherslu á að hægt sé að koma í veg fyrir þessa sjúkdóma með því að koma böndum á smitferjurnar með markvissum aðgerðum stjórnvalda, samfélagshópa og fjölskyldna.

Einfaldar aðgerðir eins og að nota flugnanet með skordýrafælandi efnum sem svefnskjól þar sem við á hafa þegar bjargað milljónum mannslífa.

Aukning í Evrópu
Í Evrópu hafa sjúkdómar sem berast með smitferjum verið að sækja í sig veðrið að nýju. Fólksflutningar, breytingar í umhverfi og lífríki, veðurfarsbreytingar félagsleg og efnahagsleg hrörnun og pólitískur óstöðugleiki eiga sinn þátt í að stuðla að þessum vaxandi lýðheilsuvanda.

Moskítófluga að sjúga mannsblóð. Dæmi um þennan óvænta vanda er að malaríu hefur aftur orðið vart á svæðum þar sem hún var horfin. Margir aðrir slíkir sjúkdómar hafa færst í vöxt og má þar nefna leishmanssýki, blæðandi hitasótt og mítilborna heilabólgu. Einnig hefur orðið vart við aðra sjúkdóma eins og beinbrunasótt, síkúngúnjasótt og Vestur-Nílarsótt, sem ekki hafa þekkst áður í Evrópu, en fylgja auknum ferðum og viðskiptum og hugsanlega loftslags- og umhverfisbreytingum.

Ísland er sem betur fer laust við moskítóflugur og margar aðrar smitferjur. Vitað er þó að skógarmítill, sem veldur vanda í mörgum nágrannalöndum okkar, getur borist til landsins. Ekki hefur enn sem komið er orðið vart við að hann hafi borið með sér smit hér á landi, svo sem Borrelíosa-Lyme sjúkdóminn. Hugsanlegt er að hlýnun veðurfars og vaxandi skóglendi hér á landi geti breytt þessu.

Íslendingar ferðast talsvert til landa þar sem sjúkdómar sem berast með smitferjum eru tíðir. Mikilvægt er að ferðamenn kynni sér vel þær áhættur sem eru á stöðum sem haldið er til og hvernig best er að bregðast við þeim.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka