14.03.14

Hagsæld og hamingja – Málþing 20. mars 2014

Sjá stærri mynd

Dr. Ruut Veenhoven

Hvernig getur samfélagsgerð haft áhrif á hamingju íbúa?

Á alþjóðlega hamingjudaginn, 20. mars næstkomandi, verður haldið opið málþing um hagsæld og hamingju í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14–16.

Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Ruut Veenhoven, sem er virtur hollenskur vísindamaður í hamingjurannsóknum. Hann mun halda erindi um hvernig samfélag hefur áhrif á hamingju íbúa en hann hefur verið kallaður ,,guðfaðir hamingjurannsókna". Hann er heiðursprófessor við Erasmus University í Rotterdam og hefur fengið margar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar.

Dr. Ruut Veenhoven er stofnandi stærsta gagnabanka um mælingar á hamingju í heiminum (The World database of happiness) og fyrrum ritstjóri og stofnandi tímaritsins „The Journal of Happiness Studies".

Rannsóknir hans hafa sýnt að hamingjusamir lifa lengur, eru við betri heilsu, virkari þjóðfélagsþegnar, í betri hjónaböndum og eru síður frá vinnu vegna veikinda. Það er því þjóðfélagslega hagkvæmt að sem flestir séu hamingjusamir auk þess sem það hefur góð efnahagsleg áhrif á bæði atvinnulífið og hið opinbera.

Dagskrá málþingins Hagsæld og hamingja verður á þessa leið:

Hrefna Guðmundsdóttir býður málþingsgesti velkomna

14:00  Ávarp: Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík

14:15 Hvernig getur samfélag haft áhrif á hamingju íbúa?
 Dr. Ruut Veenhoven, forstöðumatðu World Database of happiness

15:00 Hamingja Íslendinga eftir efnahagshrun,
 Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis

15:10 Hamingja og stjórnmálaskoðanir,
 Dr. Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði við HÍ

Ragna Árnadóttir, formaður samráðsvettvangs um aukna hagsæld mun bregðast við erindum og ræða hvernig hægt er að nota niðurstöður hamingjurannsókna til stefnumótunar í íslensku samfélagi til framtíðar.

Fundarstjóri er Páll Matthíasson, geðlæknir og forstjóri Landspítala - Háskólasjúkrahúss.

Athugið. Hægt verður að horfa á beina útsendingu frá málþinginu frá kl. 13:30 á slóðinni mms://130.208.166.61:8080

Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt 20. mars Alþjóðlega hamingjudaginn og eru jafnframt að skoða hvernig megi bæta mælikvarða um hamingju við aðrar mælingar til að meta heildræna framþróun þjóðríkja.

Að málþinginu standa, auk Embættis landlæknis, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Hamingjuvísir og Þekkingarmiðlun í samstarfi við Reykjavíkurborg, forsætisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Landsvirkjun.

Nánar: Dagskrá málþingsins (PDF)

 

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðsstjóri

<< Til baka