07.03.14

Dauðsföll vegna sterkra verkjalyfja eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis

Embætti landlæknis hefur haft til skoðunar átta nýleg mál er varða dauðsföll vegna sterkra verkjalyfja. Í flestum tilvikum er um að ræða einstaklinga í fíknivanda sem leysa lyfin upp og sprauta sig með þeim. Ef grunur leikur á að einstaklingar hafi látist með óeðlilegum hætti, þar sem lyf eða önnur efni eiga í hlut, eru sýni úr þeim látnu send til greiningar á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði í Háskóla Íslands.

Í mörgum tilvikum má leiða líkum að því að þau efni sem finnast í sýnum hafi átt þátt í andláti viðkomandi einstaklings á beinan eða óbeinan hátt. Ef um er að ræða lyf sem eru á markaði hér á landi er kannað hvort þeim hafi verið ávísað á viðkomandi einstakling stuttu fyrir andlát.

Í málum margra einstaklinga sem hafa verið til skoðunar kom hins vegar í ljós að þeir fengu lyfjunum ekki ávísað sjálfir. Nokkur lyf sem eru á markaði hafa greinst í miklum styrk í þessum einstaklingum og eru það einkum sterk verkjalyf. Ástæða er til að gæta sérstakrar varúðar við notkun þessara lyfja því mörg þeirra eru með langverkandi eiginleika og/eða eru í mjög háum styrk (mikið magn í hverri einingu).

Þetta eru lyf eins og fentanýl (Fentanyl, Durogesic), morfín (Contalgin), tramadól (Tramadol, Tramól, Tradolan, Nobligan, Zytram), oxýkódon (Oxycodone, OxyContin, OxyNorm, Targin), ketóbebidón (Ketogan) og búprenorfín (Norspan, Subutex), sem öll eru eftirsótt meðal fólks sem á við fíknivanda að stríða og tilheyra öll flokki ópíata. Lyfin gagnast þeim sem glíma við erfiða verki og aðra erfiða sjúkdóma, en notkun þeirra á eingöngu að vera stýrt af lækni.

Fentanýl tilheyrir þessum lyfjaflokki og árið 2013 fengu 483 einstaklingar ávísað fentanýli á Íslandi, 155 konur og 328 karlar, en flestir þeirra eru eldri einstaklingar. Fentanýl er í forðaplástrum sem settir eru á húð og losnar lyfið í gegnum húðina og inn í líkamann en gæta skal sérstakrar varúðar við notkun lyfsins (sjá Sérlyfjaskrá).

Ábending barst Embætti landlæknis frá Fangelsismálastofnun um að fentanýl-plástrar fyndust oft við leit í fangelsum en erfitt getur reynst að finna plástrana því þeir eru gegnsæir og litlausir. Dæmi eru um að fangar leysi fentanýl úr plástrum í heitu vatni og noti í te.

Annað lyf í þessum flokki er tramadól sem hefur komið við sögu í u.þ.b. tveimur dauðsföllum á ári að undanförnu. Talið var í fyrstu að minni ávanahætta fylgdi notkun tramadóls en öðrum ópíötum, en komið hefur í ljós að svo er ekki og lyfið hefur verið mikið notað og talsvert misnotað. Tramadól var ekki eftirritunarskylt, eins og önnur ópíöt, fyrr en 1. janúar 2013.

Önnur lyf en sterk verkjalyf finnast einnig í banvænu magni í sumum dauðsföllum eins og t.d. metýlfenidat og þunglyndislyf.

Það er mikilvægt að einstaklingar sem hafa notað ofangreind lyf og eiga afgang af þeim að meðferð lokinni fari með afgangana til eyðingar í apóteki.

Magnús Jóhannsson læknir
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

<< Til baka