27.02.14

Bólusetning gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (MMR) kemur einnig í veg fyrir aðrar alvarlegar sýkingar

Í nýrri rannsókn frá Danmörku sem birtist í Journal of American Medical Association (JAMA 2014;311(8):826-835) kemur í ljós að MMR bólusetning við 15 mánaða aldur dregur úr alvarlegum sýkingum bólusettra barna í marga mánuði eftir bólusetninguna, einkum alvarlegum lungnasýkingum.

Ekki er að fullu ljóst af hverju þetta stafar en líklega veldur bólusetningin ósérhæfðri örvun á ónæmiskerfinu sem verndar gegn fleiri sýkingum en þeim sem bólusett er gegn. Þessum áhrifum hefur áður verið lýst eftir mislingabólusetningu í vanþróuðum löndum en ekki verið lýst í hinum svokölluðu þróuðu löndum.

Þessar upplýsingar ættu að vera foreldrum hvatning til að láta bólusetja börn sín gegn ofangreindum sjúkdómum en hér á landi er bólusett með MMR bóluefninu við 18 mánaða og 12 ára aldur.

Rétt er að minna á að alvarlegar aukaverkanir eru afar fátíðar eftir bólusetninguna og sannað hefur verið að engin tengsl eru á milli MMR bólusetningarinnar og einhverfu.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka