30.12.13

Ársskýrsla áranna 2011 og 2012 er komin út

Á vef Embættis landlæknis er komin út skýrsla um starfsemi embættisins árin 2011 og 2012 undir heitinu Ársskýrsla Embættis landlæknis 2011/2012. Skýrslan tekur til tveggja viðburðaríkra ára í sögu embættisins og markar útgáfa hennar ákveðin tímamót.

Ársskýrslan sem hér er á ferð er sú fyrsta sem rekur starfsemi Embættis landlæknis eftir sameiningu Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar sem gekk formlega í gildi 1. maí 2011. „Ákveðið var að fjalla um þessi tvö ár í einni og sömu skýrslu þar sem þetta er tímabil mikilla og samfelldra breytinga í starfi embættisins," eins og Geir Gunnlaugsson landlæknir segir í formála skýrslunnar.

Í upphafskafla skýrslunnar er sameiningarferlið rakið í grófum dráttum og skýrt frá breytingum á skipuriti embættisins og stefnumótun í kjölfar sameiningar. Í meginhluta skýrslunnar er greint frá starfsemi einstakra fagsviða, þ.e. sviðs áhrifaþátta heilbrigðis, eftirlits og gæða, heilbrigðisupplýsinga og sóttvarna. Þá er í sérstökum köflum fjallað um rannsóknir, útgáfustarfsemi og fjárhag embættisins.

Viðaukar ársskýrslunnar eru þrír. Í þeim fyrsta er greint frá fundum, ráðstefnum og öðrum viðburðum á vegum Embættis landlæknis og í samvinnu við aðra á árunum 2011 og 2012. Viðauki 2 hefur að geyma yfirlit yfir nefndir, ráð og vinnuhópa á vegum embættisins eða með aðsetur þar. Í síðasta viðaukanum eru taldar upp vísindagreinar og bókarkaflar eftir sérfræðinga hjá embættinu sem birtust árin 2011 og 2012.

Ársskýrsla Embættis landlæknis 2011/2012 er 66 bls. að lengd. Hún er gefin út rafrænt á vef embættisins og kemur einnig út á prenti í litlu upplagi. Prentuðu útgáfunni verður dreift til samstarfsaðila á nýju ári.

Ritstjóri er Jónína Margrét Guðnadóttir, útgáfu- og vefstjóri. Útlit og umbrot annaðist Auglýsingastofa Þórhildar.

Lesa nánar: Ársskýrsla Embættis landlæknis 2011/2012 (PDF)


Jónina Margrét Guðnadóttir

 

<< Til baka