20.12.13

Fyrstu samtengingar á rafrænum sjúkraskrám milli sjúkrastofnana

Þann 19. nóvember sl. hófust prófanir á semtengingum á milli Heilbrigðisstofnananna á Vesturlandi og á Suðurnesjum. Heilbrigðisnetið Hekla, sem er í eigu Embættis landlæknis, er notað til að miðla heilbrigðisupplýsingunum á milli stofnana á öruggan máta.

Verkefnið fer vel af stað og standa vonir til þess að fleiri heilbrigðisstofnanir bætist fljótlega við. Til að byrja með eru það eingöngu upplýsingar sem skráðar eru í sjúkraskrárkerfið Sögu sem verða aðgengilegar á milli stofnana, en síðar munu önnur sjúkraskrárkerfi einnig geta miðlað heilbrigðisupplýsingum.

Þann 1. maí 2009 tóku gildi ný sjúkraskrárlög (nr. 55/2009) og mörkuðu þau tímamót í uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár að því leyti að lögin heimila samtengingar rafrænna sjúkraskráa. Embætti landlæknis vinnur nú að tilraunaverkefni þar sem aðgangur að lykilsjúkraskrárupplýsingum er samtengdur milli heilbrigðisumdæma. Um er að ræða skilgreindar sjúkraskrárupplýsingar eins og ofnæmi, lyf, greiningar, meðferð, komur og innlagnir.

Með samtengingu rafrænna sjúkraskráa gegnum öruggt heilbrigðisnet er lagður grunnur að uppbyggingu heildrænnar sjúkraskrár einstaklings, óháð því hvar upplýsingarnar eru skráðar. Slíkt hefur ótvíræða kosti í för með sér, en greiður aðgangur meðferðaraðila að mikilvægum upplýsingum um sjúkling, hvar og hvenær sem þeirra er þörf, veitir aukna yfirsýn og tryggir eins og unnt er samfellu þjónustunnar. Þannig stuðlar samtengd sjúkraskrá að því að hægt verði að veita sjúklingi eins örugga heilbrigðisþjónustu og kostur er á hverjum tíma.

Með tilraunaverkefninu er búið að stíga mikilvægt skref í þróun og innleiðingu samtengdrar rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu þar sem öryggisstöðlum er fylgt til hins ýtrasta. Með markvissri uppbyggingu og þróun á rafrænni sjúkraskrá og samræmdri notkun má bæta þjónustu, öryggi og gæði sem og hagræða í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Ingi Steinar Ingason 
G. Auður Harðardóttir

<< Til baka