18.12.13

Flensur og aðrar pestir – 50. vika 2013

Öndunarfærasýkingar
Inflúensan virðist ekki komin til landsins og er staðan svipuð og í síðustu viku. Stöku tilkynningar um inflúensulík einkenni berast sóttvarnalækni, en þessar tölur endurspegla klínískan grun læknis um inflúensu, sjá mynd 1 og töflu 1.

Stöku tilfelli af inflúensu hafa verið staðfest í öðrum löndum Evrópu, þar af eru flestir með inflúensu A, ýmist af stofni A(H1)pdm2009 eða A(H3). Inflúensa B hefur einnig verið staðfest. Samkvæmt þessu virðist enn vera lítið um inflúensu í Evrópu, nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Sóttvarnastofnunar ESB.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala greinast nokkur tilfelli af Respiratory syncytial veiru (RSV) í hverri viku. Aðrar öndunarfæraveirur sem greinast eru enteróveira, adenóveira, parainflúensa 1 og 2 ásamt rínóveiru, sjá töflu 2.


Magapestir
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala greinast stöku einstaklingar í hverri viku með caliciveirur, þar af voru 13 með saphóveiru og 21 með nóróveiru frá nóvemberbyrjun, sjá töflu 3. Í einstaka sýni greinist astróveira og adenóveira en enginn hefur greinst með rótaveiru.

Sóttvarnalæknir fylgist með fjölda þeirra sem eru með niðurgang samkvæmt klínískri greiningu læknis (ICD-10 A09), sjá mynd 2

Fjöldi þeirra sem leituðu læknis vegna niðurgangs fer nú vaxandi, sem er sambærilegt við sama tímabil síðastliðið ár.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka