10.12.13

Tímamót í heilbrigðisupplýsingum - yfirlit yfir starfsemi sjúkrahúsa í rauntíma

Embætti landlæknis stendur nú á tímamótum hvað varðar útgáfu heilbrigðisupplýsinga í rauntíma. Embættið getur nú unnið með og birt upplýsingar um starfsemi legudeilda sjúkrahúsa frá degi til dags, í rauntíma og samfellt aftur til ársins 1999.

Í dag, þriðjudaginn 10. desember lágu t.d. 1.232 einstaklingar inni á sjúkrahúsum landsins. Samtals lögðust 154 einstaklingar inn á öll sjúkrahús á landinu 9. desember en 106 einstaklingar útskrifuðust sama dag.

Flestir einstaklingar lágu á Landspítala og Sjúkrahúsinu Akureyri, sjá töflu 1 og var algengast að inniliggjandi sjúklingar væru að sækja sér þjónustu á deildum sem sinna öldrunarlækningum og lyflækningum, sjá mynd 1.

Bylting í heilbrigðistölfræði
Aðgengi að áreiðanlegum rauntímaupplýsingum um starfsemi sjúkrahúsa er bylting í heilbrigðistölfræði á Íslandi og mun gerbreyta möguleikum á eftirliti með starfsemi, gæðum og árangri þjónustunnar og styðja við stefnumótun og áætlanagerð.

Fram til þessa hafa gögn til vinnslu starfsemisupplýsinga fyrir allt landið alla jafna verið eins til tveggja ára gamlar.

Skortur á aðgengilegum og nýjum upplýsingum um starfsemi heilbrigðisþjónustu, m.a. til stjórnunar og eftirlits, hefur verið til umræðu á síðustu misserum.  Skemmst er minnast ábendinga ráðagjafafyrirtækisins Boston Consulting Group og ráðgjafahóps velferðarráðherra þar um í lok árs 2011.

Til þess að mæta þörfum fyrir tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar var mörkuð stefna til að gjörbreyta aðferðum við söfnun, vinnslu og miðlun heilbrigðisupplýsinga. Þetta starf hófst síðla árs 2011 og hefur verið unnið jafnt og þétt að því að ná þessu mikilvæga markmiði.

Samkvæmt starfsáætlun embættisins fyrir árið 2014 er nú stefnt að því að:

  1. Rafrænar rauntímasendingar verði meginaðferð við söfnun upplýsinga í heilbrigðisskrár embættisins.
     
  2. Vöruhús heilbrigðisupplýsinga verði uppspretta lykiltalna um m.a. starfsemi heilbrigðisstofnana og mikilvæga heilsu og gæðavísa á gagnvirkan hátt.
     
  3. Stutt verði við samræmda skráningu í rafræna sjúkraskrá með því að leiðbeina og hvetja skráningaraðila og veita þeim endurgjöf.

Starfsemisupplýsingar í rauntíma
Fyrsti áfangi þessa starfs er nú í höfn. Í honum var lögð áhersla á að koma á fót rafrænum rauntímasendingum starfsemisupplýsinga frá sjúkrahúsum og gera þær vinnsluhæfar í svokölluðu vöruhúsi gagna. Vöruhúsið, með verkfærum til úrvinnslu, verður nú smám saman meginvettvangur fyrir söfnun, greiningu og miðlun á öllum tölfræðilegum heilbrigðisupplýsingum hjá Embætti landlæknis.

Gögn frá sjúkrahúsum berast nú með öruggum og dulkóðuðum rafrænum hætti og í rauntíma til Embættis landlæknis í dulkóðaða vistunarskrá heilbrigðisstofnana. Gögn varðandi legur (innlagnir og útskriftir) á sjúkrahúsum hafa farið í gegnum langt og strangt gæðaprófunarferli í samvinnu við stofnanir og þykja nú almennt áreiðanleg og taka til tímabilsins frá 1999 til dagsins í dag.

Fyrstu tölfræðiskýrslur um starfsemi sjúkrahúsa úr hinu nýja vöruhúsi koma því nú út á vef embættisins, annars vegar sem heildartölur um starfsemi sjúkrahúsa og hins vegar sem tölur um starfsemi einstakra stofnana.

Tölfræði um starfsemi stofnana úr vistunarskrá hefur verið nýtt í innra starfi embættisins, henni hefur verið miðlað til velferðarráðuneytis, til Hagstofunnar, í alþjóðlega gagnabanka og til annarra eftir þörfum og yfirlitstölfræði birt á vef. Eftir er að ljúka gæðaprófun varðandi komur á dag- og göngudeildir sjúkrahúsa en þau gögn berast nú einnig rafrænt og í rauntíma.

Á komandi ári verður hafinn undirbúningur að rafrænum rauntímasetningum frá heilsugæslu til Embættis landlæknis þannig að einnig verði hægt að hafa yfirsýn yfir starfsemi heilsugæslu í rauntíma.


Sigríður Haraldsdóttir

sviðsstjóri

<< Til baka