04.12.13

Flensur og aðrar pestir í nóvember 2013

Öndunarfærasýkingar
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hefur inflúensan ekki verið staðfest hér á landi í vetur. Stöku tilkynningar um inflúensulík einkenni, sem endurspegla klínískan grun læknis um inflúensu, berast til sóttvarnalæknis, sjá mynd 1 og töflu 1. Inflúensan virðist því ekki komin til landsins.

Stöku tilfelli af inflúensu hafa verið staðfest í öðrum löndum Evrópu, þar af eru flestir með inflúensu A en inflúensa B hefur einnig verið staðfest. Algengasti inflúensu A-stofninn er A(H1)pdm2009 en A(H3) hefur einnig greinst. Inflúensan hefur ekki náð mikilli útbreiðslu í Evrópu en gera má ráð fyrir að hún aukist á næstu vikum og mánuðum.

Fyrstu tilfelli RSV (e. respiratory syncytial virus) á Íslandi greindust í nóvember, en veiran hefur verið staðfest hjá fimm einstaklingum, sjá töflu 2. Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins hefur RSV einnig greinst í öðrum löndum Evrópu.
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hafa nokkrir einstaklingar greinst með enteróveiru, adenóveiru, parainflúensu 1 og 2 ásamt rínóveiru.

Magapestir
Í nóvember var caliciveiran staðfest hjá alls 24 fjórum einstaklingum, þar af voru 16 með nóróveiru og 8 með sapóveiru sjá töflu 3. Adenóveira hefur greinst hjá tveimur einstaklingum en enginn var með rótaveiru.

Sóttvarnalæknir fylgist með fjölda þeirra sem eru með niðurgang samkvæmt klínískri greiningu læknis (ICD-10, A09), sjá mynd 2 og töflu 4.

Fjöldi þeirra sem leituðu læknis vegna niðurgangs er svipaður nú og hefur verið síðastliðin ár. Fjöldi einstaklinga með niðurgang sveiflast eftir árstíðum, þeim fækkar yfir sumartímann en fjölgar á haustin og yfir vetrarmánuðina.

Svo virðist sem nokkuð sé um caliciveiru í samfélaginu, en hún er helsta orsök gubbupestar sem smitast mjög auðveldlega milli manna.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka