29.11.13

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember 2013

Sjá stærri mynd

Rauði borðinn

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að rúmlega 35 milljón manna séu smitaðir af HIV í heiminum. Stofnunin vekur athygli á því að 2 milljónir manna á aldrinum 10 – 19 ára lifi með HIV og margir njóti ekki nauðsynlegrar meðferðar og umönnunar. Aukning á dauðsföllum fer vaxandi í þessum aldurshópi sem er smitaður á sama tíma og dregið hefur úr dauðsföllum almennt í aldurshópnum á tímabilinu frá 2005 til 2012.
Brýnt er að ná til þessa hóps til að veita þeim meðferð og stuðning. Þess skal getið að HIV smit meðal ungmenna á Íslandi eru fátíð.

Á Íslandi hafa 307 manns greinst með HIV frá upphafi. Það sem af er þessa árs hafa sjö einstaklingar greinst með HIV sem er talsverð fækkun miðað við undanfarin ár. Af þeim eru fjórir samkynhneigðir karlar, tveir gagnkynhneigðir (karl og kona) og einn með sögu um fíkniefnaneyslu í æð. Það virðist sem umtalsvert hafi dregið úr smiti meðal fíkniefnaneytenda. Meðaldur þeirra sem greindust á árinu er 35 ár (19-54 ára).

Á Íslandi er gott aðgengi að meðferð og umönnun vegna HIV smits sem gerir þeim sýktu mögulegt að lifa nánast eðlilegu lífi. Ef ekkert er að gert leiðir HIV smit til alnæmis sem er banvænn sjúkdómur.

  • Hvatt er til þess að fólk ræði um HIV og fari í próf á heilsugæslustöð. 
  • Rétt meðferð kemur í veg fyrir að sjúkdómur þróist og eykur mjög líkur á góðu lífi.
  • Rétt meðferð dregur verulega úr líkum á því að smit berist á milli manna.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka