22.11.13

Sýkingar pneumókokka hjá leikskólabörnum – Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum

Sjá stærri mynd

Þórólfur Guðnason flytur erindi um doktorsritgerð sína í Hátíðarsal H.Í. 22. nóvember 2013.

Í dag, 22. nóvember 2013, varði Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnasviði Embættis landlæknis doktorsritgerð sína í lýðheilsu-
vísindum við Háskóla Íslands sem nefnist Sýkingar og sýklun pneumókokka hjá börnum á íslenskum leikskólum - faraldsfræði, áhættuþættir og íhlutandi aðgerðir

Andmælendur voru dr. Pentti Huovinen, prófessor í örveru og ónæmisfræði við Læknadeild háskólans í Turku, og dr. Sigurður Guðmundsson prófessor í lyflækningum við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Umsjónarkennari og aðalleiðbeinandi var dr. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir og dósent við Læknadeild Háskóla Íslands, en athöfninni við vörn Þórólfs stjórnaði dr. Magnús Karl Magnússon, forseti Læknadeildar.

Markmið doktorsverkefnisins var að:

  1. Lýsa algengi pneumókokkasýklunar hjá börnum á leikskólum, greina áhættuþætti sýklunar og kanna áhrif hreinlætisaðgerða á leikskólum.
  2. Lýsa nýgengi hita, öndunar- og meltingarfærasýkinga hjá börnum á leikskólum, greina áhættuþætti þeirra og kanna áhrif hreinlætisaðgerða á ofangreinda sjúkdóma.

Aðferð
Doktorsverkefnið byggði á tveimur rannsóknum á leikskólum. Rannsókn I var gerð á fimm leikskólum í Reykjavík á tímabilinu 1992–1999 þar sem 1228 börn voru rannsökuð. Rannsókn II var gerð á 30 leikskólum í Kópavogi og Hafnarfirði á tímabilinu 2000–2003 þar sem 2349 börn voru rannsökuð.

Niðurstöður

  • Rúmlega helmingur barnanna greindist með pneumókokka í nefkoki og 7–15% greindust með penicillín-ónæma pneumókokka. Sýklun var marktækt breytileg milli leikskóla og var hæst hjá yngstu börnunum. Sýklalyfjanotkun lækkaði sýklun pneumókokka marktækt og einungis notkun cephalosporin sýklalyfja fyrir sýnatöku jók áhættuna á að greinast með penicillínónæma pneumókokka. Fjöldi kvefpesta jók marktækt áhættuna á greiningu pneumókokka.
     
  • Nýgengi hita, öndunar- og meltingarfærasýkinga var há og svipaði til tíðni sjúkdómanna í erlendum rannsóknum. Áhættan var mest hjá yngri börnunum og breyttist tíðnin marktækt milli árstíða en var svipuð á milli leikskóla.
     
  • Staðlaðar hreinlætisaðgerðir á leikskólum höfðu hvorki áhrif á algengi pneumókokka né á nýgengi hita, öndunar- og/eða meltingarfærasýkinga, líklega vegna góðs undirliggjandi hreinlætis á íslenskum leikskólum.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka