21.11.13

Health at a Glance 2013 er komið út

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gefur í dag út ritið Health at a Glance 2013, OECD Indicators. Í ritinu er að finna tölulegar upplýsingar um heilbrigðismál í 34 aðildarlöndum OECD, settar fram í töflum, myndritum og texta. Ritið Health at a Glance er gefið út annað hvert ár en það kom fyrst út árið 2001.

Ritið skiptist í átta kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilsufars aðra en læknisfræðilega, mannafla í heilbrigðisþjónustu, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, gæði þjónustu, aðgengi að þjónustu, heilbrigðisútgjöld og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar og þjónustu við aldraða og langveika. Tölur í nýja ritinu taka að jafnaði til ársins 2011.

Umfjöllun um stöðu Íslands í samanburði við önnur ríki OECD má nálgast á vef Hagstofu Íslands, en Hagstofan hefur veg og vanda að söfnun gagna fyrir OECD hér á landi, m.a. frá Embætti landlæknis.

Fréttatilkynningu OECD á ensku, sem og ritið í heild er að finna á eftirfarandi síðum:
Fréttatilkynning OECD
Health at a Glance 2013

Nánar verður fjallað um heilsuvísa og útgáfu OECD í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar í desember nk.

Fjölþjóðlegur samanburður
Við samanburð á tölfræði á milli landa ber alltaf að slá þann varnagla að þrátt fyrir staðlaðar skilgreiningar getur verið nokkur munur á milli þess hversu vel lönd ná að uppfylla þær. Þá geta hlutfallslegar sveiflur í tölum fyrir Ísland virkað stærri á milli ára þar sem að oft er um fáa einstaklinga að ræða að baki tölunum. Í sumum tilvikum er því notast við meðaltöl nokkurra ára. Tölur um krabbamein eru dæmi um slíkt.

Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir
verkefnisstjóri

 

<< Til baka