12.11.13

Skráargatið innleitt á Íslandi

Sjá stærri mynd

Í dag var Skráargatið innleitt á Íslandi þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði reglugerð um norræna Skráargatið. Markmiðið með Skráargatinu er að neytendur geti á einfaldan hátt valið hollari matvöru.

Skráargatið

Matvælastofnun og Embætti landlæknis standa sameiginlega á bak við Skráargatið og hafa unnið að innleiðingu þess. Um er að ræða opinbert samnorrænt merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi innihald næringarefna:

  • Minni og hollari fita
  • Minni sykur
  • Minna salt
  • Meira af trefjum og heilkorni

Skráargatið auðveldar hollara val og þar með að fara eftir opinberum ráðleggingum um mataræði því vörur sem bera merkið eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið.

Matvælaframleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á sínar vörur, uppfylli þær ákveðin skilyrði varðandi innihald næringarefna. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetur merkið matvælaframleiðendur til að þróa hollari matvörur og stuðlar þannig að auknu úrvali á hollum matvælum á markaði.

Það er hlutverk Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga að fylgjast með að farið sé eftir reglum um notkun merkisins.

Nú er „einfalt að velja hollara" – kynntu þér málið á skraargat.is!

 

Spurningar og svör um Skráargatið

Fyrirlestrar á innleiðingarathöfn í atvinnuvegaráðuneytinu 12. nóvember 2013 

Elva Gísladóttir, Embætti landlæknis: Innleiðing Skráargatsins. Einfalt að velja hollara (PDF)

Zulema Sullca Porta, Matvælastofnun: Innleiðing Skráargatsins. Tækifæri og áskoranir fyrir matvælaframleiðendur og innflytjendur (PDF)

 

Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis

 

<< Til baka