Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ
Málþing og undirritun samstarfssamnings
Miðvikudaginn 2. október 2013 munu Mosfellsbær, Embætti landlæknis og heilsuklasinn Heilsuvin skrifa undir samstarfssamning um Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ. Samningurinn er gerður í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sem ákvað á 25 ára kaupstaðarafmæli bæjarins að verða Heilsueflandi samfélag með formlegum hætti í samstarfi við Embætti landlæknis.
Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu. Verkefninu er ætlað að ná til allra aldurshópa í samfélaginu, m.a. í gegnum heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, vinnustaði og starf eldri borgara og stuðla þannig að góðri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum.
Við þróun verkefnisins síðustu mánuði hefur verið leitast við að ná til allra hagsmunahópa í samfélaginu til að leggja línurnar um hvað skiptir mestu máli til að ná þessum markmiðum.
Málþing í Lágafellsskóla – Gestafyrirlesari Ólafur Stefánsson
Lágafellsskóli hefur unnið markvisst að heilsueflingu síðustu tvö ár í tengslum við Nordplus verkefnið Vitund, virkni og vellíðan. Verkefnið er unnið í samstarfi við Skóla ehf. og tvo skóla í Lettlandi og Eistlandi.
Til að kynna þessi verkefni og áherslur sveitarfélagsins í heilsueflingu verður blásið til málþingsins Vitund, virkni og vellíðan – í Heilsueflandi samfélagi í Lágafellsskóla 2. október nk. klukkan 19.30.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setur málþingið og munu Geir Gunnlaugsson landlæknir og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri flytja ávörp. Ólöf Kristín Sívertsen, fagstjóri Skóla, og Jóhanna Magnúsdóttir, skólastjóri Lágafellsskóla, munu flytja erindi um heilsueflingu í Lágafellsskóla og að lokum mun Ólafur Stefánsson handboltakappi flytja erindið ,,Næring, hugur og árangur".
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Nánari upplýsingar veita:
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, Embætti landlæknis s. 510 1900
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar s. 862-0012
Ólöf Kristín Sívertsen, Skólar/heilsuklasinn Heilsuvin s. 695-0206