26.08.13

Ráðstefna um öryggi í heilbrigðisþjónustu

Sjá stærri mynd

Þriðjudaginn 3. september nk. efnir Embætti landlæknis til ráðstefnu um öryggi í heilbrigðisþjónustu í Hörpu kl. 12:00–17:00.

Spurningin um öryggi sjúklinga í flóknu heilbrigðiskerfi nútímans verður sífellt áleitnari, ekki síst á tímum samdráttar og niðurskurðar. Til að varpa ljósi á alþjóðlega umræðu um þessi mál hefur Embætti landlæknis boðið Sir Liam Donaldson til landsins. Hann er einn þekktasti og eftirsóttasti fyrirlesari heims á þessu sviði og hann verður aðalfyrirlesari á ráðstefnu embættisins sem ber heitið How Safe are We?

Sir Liam Donaldson Sir Liam Donaldson er fyrrverandi landlæknir Breta og er í forustu fyrir World Alliance for Patient Safety sem er verkefni innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Innan verkefnisins leggur Sir Liam sérstaka áherslu á störf hóps, Patients for Patient Safety þar sem veitendur og notendur heilbrigðisþjónustu koma saman. Hann er sendiherra sjúklingaöryggis fyrir stofnunina auk þess að vera prófessor við Imperial College í London. Hann var aðlaður árið 2002 fyrir störf sín í þágu öryggis og gæða í heilbrigðisþjónustu.

Á ráðstefnunni verður leitað svara við því hvað sé í raun örugg heilbrigðisþjónusta og tengja þá umræðu við íslenskan veruleika. Þá verður einnig leitast við að svara spurningunni hvernig hefur okkur miðað á undanförnum árum í því að gera heilbrigðisþjónustuna öruggari og hvað höfum við lært af reynslunni til að auka öryggi notenda.

Ráðstefnan snertir dagleg viðfangsefni alls heilbrigðisstarfsfólks og ekki síður notendur þjónustunnar.

Sjá nánar: Dagskrá

Ráðstefnan How Safe are We? er haldin  í samvinnu við velferðarráðuneytið og með stuðningi Landspítala. Hún er öllum opin en þátttakendafjöldi er takmarkaður við 180. Tungumál ráðstefnunnar er enska

Þátttökugjald er 6.500 krónur og er kaffi/te og meðlæti innifalið.

Smelltu hér til að skrá þig: Skráning


Leifur Bárðarson yfirlæknir

<< Til baka